Raudhausar.com

Kæru lesendur,

Byrjaður að blogga aftur á Rauðhausum.com/jonknutur.

Grikkir

Athyglisverðasta Eurovisionlag frá upphafi að mínu mati. Tékkið á dansporunum.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

Sinead

Þar sem allir eru fríka út þessa dagana í pólitískum tittlingaskít langar mig til að deila þessu með ykkur.

Restless farewell

Ég stend á tímamótum. Ég er kominn í nýja vinnu og búinn að kaupa mér grill.

Ég ætla að nota tækifærið og hrinda í framkvæmd svolitlu sem má eiginlega ekki bíða mikið lengur: Ég tilkynni hér með að ég er hættur að blogga.

Áhugi minn á bloggi (á skrifum og lestri þess) minnkar á sama hraða og dagurinn lengist og dagurinn lengist ansi hratt þessa dagana. Blogg er nefnilega vetrarsport og fátt er hallærislegra en brun í gervisnjó. Ég er ekki hallærislegur. Þannig að …

Ég hef hugsað mér að byrja aftur síðsumars en þá sem netvarpari (hvernig þýðir maður annars podcasting?) á Rauðhausum punktur com sem Esther er hægt og rólega að kalla fram með stafrænum töfrabrögðum. Hún er galdranorn. Hún er rauðhærð. Hún er væntanleg heim eftir níu tíma.

Ég þakka lesturinn. Við hittumst í raunheimum.

Fært undir Óflokkað. 9 ummæli »

Laugar

Í borginni fór ég í Laugar. Þetta baðhús minnir mig á Graceland í Memphis, álíka smekklaust og álíka úrkynjað, en ég var timbraður og naut þess að rölta um “hellinn” hálf nakinn með félögum mínum. Sumar konurnar voru berbrjósta og sumir karlarnir án fata yfirleitt. Karlarnir töluðu mikið um að fá sér “einn kaldan í kvöld” og rækjust þeir á konur sem þeir þekktu voru þær umsvifalaust spurðar að því hvort þær væru ekki “ferskar”. Þær tístuðu og játuðu. Þær voru ferskar.

Púrítaninn í mér hugsaði að endalokin hlytu að vera handan við hornið.

“Bjössi í World Class” er hann kallaður maðurinn sem setti upp myndavélar í búningsklefanum í Laugum í hittiðfyrra. Hann þurfti að finna þjóf. Þetta varð síðan mikið fréttamál, eins og þið munið sjálfsagt, og eins og svo oft í svona skandölum þá skildi viðfangsefnið hreinlega ekki hvaða læti þetta voru í fjölmiðlum. Stormur í vatnsglasi, sagði Bjössi örugglega.

Og hann var einlægur í skilningsleysi sínu. Honum fannst nákvæmlega ekkert athugavert við að setja upp myndavélar í búningsklefanum. Nákvæmlega ekkert!

Eftir að hafa heimsótt Laugar get ég ekki annað en sýnt skilningsleysi Bjössa smá skilning. Hann veit nefnilega að fáir nota spegla jafn mikið og einmitt viðskiptavinir Lauga og hann veit þar með líka að flestir viðskiptavinirnir yrðu nú líklega bara soldið ánægðir ef þeir vissu að þeir væru í mynd. Gott ef þeir spenntu ekki bara vöðvana …

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Hugleiðing um Þorpið

Ég fór til Reykjavíkur um helgina. Sunnudeginum eyddi ég á kaffihúsi og las Post office eftir Bukowski í þriðja sinn. Á kápunni segir að bókin sé sú fyndnasta sem nokkurn tímann hefur verið skrifuð. Ég er sammála.

Á einum stað í bókinni flytur söguhetjan, Henry Chinaski, frá stórborginni Los Angeles til þorps í Texas. Í þorpinu líður honum vel. Hann “á” það og meinar að í því er hann nafn- og fortíðarlaus: Hann er frjáls maður. Í Los Angeles er þessu þveröfugt farið. Hann er fastur í stöðu póstburðarmanns, hann er þreyttur á sömu börunum, sömu vinunum og sömu konunum. Þetta þorp á hann.

Bukowski skrifar um stórborgina Los Angeles á svipaðan hátt og ótal margir rithöfundar hafa skrifað um smáþorp. Það ber aldrei neitt nýtt fyrir augu þorparans í þorpinu. Fyrir suma þorpara táknar það öryggi en fyrir aðra, eins og Chinaski, táknar það stöðnun andans. Örvæntingin er óumflýjanleg og niðurstaðan er taugaáfall.

En Chinaski leitar aftur til Los Angeles. Hann leitar aftur heim í þorpið sitt, í öryggið. Hann er skuldbundinn. Býst ég við.

Evrópusambandið og ég

Þriðji dagurinn. Ég horfi útum gluggann. Það er sól. Og blíða.

Ég sit inni og fylli út eyðublöð. Ég er náttúrulega ekki sá eini sem fyllir uppí eyður á þessu guðsvolaða Austurlandi. Valdi vinur minn fyllir t.d. uppí tannskemmdir og Björgvin Valur kennir í grunnskólanum. Afsakið fimmaurabrandarann.

Ef Dauðinn ákveddi að heilsa upp á ungan mann eins og mig í dag hefði hann ekkert að taka með sér heim. Hann gæti alveg eins tekið fársjúkan gamlingja. Hann myndi því skilja mig eftir og finna sér einhvern annan til að taka með sér. Einhvern stútfullan af ungmennafélagsanda þannig að það stórsér á lífinu við brotthvarfið.

Stundum vill hann sjá árangur. Eðlilega. Dauðinn er bara mannlegur.

Hvaða sjálfsvorkunn er þetta? Hvaða svartagallsraus er þetta í miðri Endurreisninni? Þið spyrjið. Réttilega.

Ó, mig langar í bjór! Og vindil!

Fært undir Óflokkað. 5 ummæli »

Vanmetin plata með Bob

Þetta er vanmetin plata með Bob. Á einhvern hátt minnir hún mig á þegar maður fór í góðra vina hópi útí urðirnar eftir ball í gamla daga. Mitt sumar. Háfleygar umræður um vel valda Norðfirðinga (t.d. Sigga Sal og Sidda) og reykingar. Síðustu bjórarnir opnaðir. Endorfínvíman eftir villtan dans í Egilsbúð fjarar út.

Góð plata.  Sumarplata.

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

Er að fylla út umsókn…

…í Evrópusambandssjóð. Ég er orðinn ótrúlega sjóaður í að sækja um styrki en ég fæ aldrei neitt eins og þið vitið.

En athyglisgáfan er engin í dag, ekki frekar en í gær, og hér sit ég núna með lappir uppá borði, hlusta á At war with the mystics með Flaming lips og les nýjasta tölublað Rolling stone. Hef það býsna notalegt.

Platan með Lips er tormelt og ég greip hana ekki fyrr en einhvern tímann um daginn þótt ég hafi hlustað mikið á hana síðasta sumar. Hún átti auðvitað að vera á topp fimm listanum mínum fyrir árið 2006 og þangað hefði hún ratað hefði ég frestað gerð hans um mánuð. Hún minnir á gullaldarplötur Pink Floyd (Dark side, Wish you were here og Animals) en það er léttara yfir henni. Þetta er sannkölluð sumarplata.

Ég er nýorðinn áskrifandi af RS. Mig langaði til að breyta til og fá mér áskrift af bandarísku mússíktímariti. Hef keypt breska blaðið Uncut í mörg ár en ákvað að gefa því hvíld þegar ég sá Bítlana á forsíðunni í janúar enn einu sinni. Ég þarf ekki að vita svona mikið um Bítlana. Ef útí það er farið þarf enginn að vita svona mikið um Bítlana.

Í gamla daga var RS helsta vígi gonzóblaðamennskunnar þar sem ritstjórnin fylgdi einskonar “anything goes” stefnu (Nixon var kallaður ófreskja reglulega). Allt var leyfilegt. Lesendur gamla RS urðu svo síðar höfundar The Simpsons. Í dag virðist þetta vera fremur kurteist, lite-vinstrisinnað og pólitískt rétthugsandi popp, lífstíls og þjóðmálatímarit. Skrifin minna mig á köflum á hið alvörugefna Reykjavík Grapevine en líkt og RG er RS blað kaldhæðinna hipstera sem vita hvað klukkan slær í pólitík, menningu og … ehhh … ferðalögum. Húmorinn er samt full Chandler Bing-ískur (vísa í Wikipedíu fyrir pabba minn sem er blessunarlega laus við að kunna deili á Chandler Bing) fyrir minn smekk, alltof mikil læti, alltof mikill rembingur. Þetta eru jú Kanar og þeir kalla þetta kaldhæðni. Ranglega. Ég hvíli Uncut í ár. Ekki lengur.

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

Brauð og leikar

Það er greinilegt að ritdeilur eru líklegastar til vinsælda í bloggheimum. Helgarlesturinn á þessari síðu jókst talsvert þegar æskuvinirnir tókust á um Brján og ég skal ekki neita því að það hafði nokkur áhrif á lífseiglu deilunnar - hvað mig varðar allavega. Maður hættir ekki bara og gengur útaf vellinum þegar skríllinn heimtar meira.

Deilur og hasar. Brauð og leikar. Give the people what they want. Það segi ég að minnsta kosti. Og Ray Davies reyndar líka ef þið trúið mér ekki. Erum við ekki annars í (rokk)show business?

Einu sinni í gamla daga kom út tölublað af Austurglugganum með sviðsettri mynd af morði á forsíðunni (tveimur dögum áður, þegar blaðið fór í prentun, vissum við ekki að gamall vinur minn var grunaður um verknaðinn. Við héldum bara að þetta væru einhverjir útlendingar, litháíska mafían eða eitthvað svoleiðis) og blaðið seldist upp. Í næsta tölublaði fylgdum við þessu eftir með forsíðufyrirsögninni “Dóp á Kárahnjúkum”. Á bakinu vorum við svo með tvær hasarfréttir. Önnur fjallaði um skógræktarstjórann á Héraði sem var “ósáttur við feitt kjet í Kaupfélaginu” og hin um Norðfirðing á Reyðarfirði sem var sannfærður um að kvenfélagið á staðnum væri að ofsækja sig. Gott stöff sumsé.

Blaðið seldist upp samdægurs og ég þurfti að panta aukaeintök frá prentsmiðjunni til að anna eftirspurn. Helgi Seljan flaug sérstaklega til Reykjavíkur til að ræða um dóp á Kárahnjúkum í spjallþáttum en spjallþáttastjórnendurnir voru ekki síður forvitnir um þetta furðulega héraðsfréttablað sem í voru fréttir er, tja, áttu kannski heima einhvers staðar annars staðar en í innansveitarkróníkunni.

En já. Við vorum búnir að meika það.

Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís. Uppfrá þessu var byrjað að kalla Austurgluggann “Litla DV” sem var sennilega ekki gott fyrir blað sem sárlega vantaði fleiri áskrifendur og mátti alls ekki tapa þeim fáu sem það hafði. Það sagði ég að minnsta kosti við háskólanemann sem hringdi í mig um daginn. Hann var að skrifa ritgerð um Austurgluggann (þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var stoltur) og hann sagðist hafa heyrt að illa hefði gengið að reka hasarfréttablað útá landi. Ég gleymdi hinsvegar að segja honum að ég held að það gangi líka illa að reka meinlausu héraðsfréttablöðin. Það gengur bara illa að reka héraðsfréttablöð. Punktur.

Lestur á síðunni minni er aftur kominn í venjulegt horf en það er óþarfi að fara á taugum. Ég hef enga auglýsendur til að hafa áhyggjur af, hvað þá áskrifendur. Byrja sumsé aftur að skrifa um Bob Dylan á morgun…

Rednekkar á Héraði

Ég fór á þetta um helgina. Ég játa það fúslega að langoftast skil ég ekki “listræna” list, sérstaklega þegar hún hefur yfir sér einhvers konar meðvitaða áru eigin mikilvægis - er ætlað segja svo, svo, svo mikið og merkilegt en tekur sjálfa sig svo hátíðlega um leið að maður getur ekki varist hlátri. Þessi listaverk á 700.is eru svo gjörsneydd húmor að það er fyndið. Já, eða kannski bara vandræðalegt - þ.e. fyrir mig. Á þessum póstmódernísku tímum, þegar manni finnst ekkert heilagt lengur (ekki einu sinni Brján), fer maður nefnilega hjá sér þegar einhverjum er svona mikið niðri fyrir.

En.

Ég skal játa það fúslega að langoftast skil ég ekki “listræna” list. Það segir hinsvegar meira um mig en listina. Kannski átti þetta bara að vera fyndið. Kannski átti maður að fara hjá sér. Og kannski er ég bara kaldhæðinn þrjótur.

Sýningin heitir 700.is og maður skildi ætla að þarna ætluðu að listamennirnir að eiga eitthvað samtal við Austfirðinga en svo var ekki. Þetta er bara tilvísun í sýningarstaðinn.

Mikið vildi ég nú einu sinni fara á listasýningu á Austurlandi þar sem listamennirnir fást við austfirskan samtíma. Það þyrfti ekki að vera neitt voðalega róttækt og kritikal. Bara Austurland í einhverri nýrri og óvenjulegri birtu. Á 700.is líður manni soldið eins og maður sé að lesa austfirskt héraðsfréttablað sem fjallar að mestu um innanríkismál í Þýskalandi.

Annars var bara fínt á þessari opnun. Ég drakk mig svona semí-fullan og hafði það bara næs. Keli bróðir gekk um hálf smeykur um að einhver tæki eftir því að honum fyndist þetta leiðinlegt og Esther hristi hausinn yfir þessari vitleysu. Saman erum við rednekkar á Héraði.

Ég hef gert talsvert af því að horfa á vídjó upp á síðkastið. Í gær horfði ég nýju Bond og ég er eiginlega enn hálfpartinn í sjokki. Þvílík ræma! Besta Bond-myndin frá upphafi. Punktur.

Sá líka Fright night um daginn en hana stendur til að endurgera með George Clooney í hlutverki vampírunnar Jerry Dandridge. Hún var skemmtileg en ég sá hana fyrst í ellefu ára afmælinu mínu árið 1986. Sá sem lék Evil Ed endaði í hommakláminu. Hann er költ fenómenón í dag. Vissuð þið það?

Besta línan: “You’re so cool, Brewster!”

Fært undir Óflokkað. 7 ummæli »

Opið bréf til Bjarna

Sæll Bjarni!

Það gleður mig að þú skulir hafa eytt svona miklu púðri í svara þessari litlu en greinilega áhrifaríku færslu - I feel honored, eins og Tjallinn segir. Ég veit hinsvegar eiginlega ekki hvernig ég á að svara þér. Á ég að tala við Bjarna eða á ég að tala við Brján? Af orðum þínum að dæma þá virðist það vera persónuleg árás á þig, Jón Hilmar, Malla, Vidda, svo maður minnist ekki á meistara Ágúst, Geir Sigurpál (the enfant terrible) eða Jóa Steina þegar maður segir eitthvað annað en “ferfalt húrra fyrir Brján!” Þannig að best er sennilega að ávarpa þig. Þannig að:

Kæri Bjarni,

Skrifin mín áttu náttúrulega að vera skot sem átti viljandi að fara langt yfir markið en mér sýnist á öllu að boltinn hafi hafnað í stönginni og síðan inn svo ég noti nú líkingamál úr fótboltanum sem þú þekkir svo vel. Sem sagt: Miðað við þessi ótrúlega morgunfúlu viðbrögð mætti halda að ég hafi haft rétt fyrir mér í einu og öllu og ég trúi því nú ekki einu sinni sjálfur.

Þú veist nefnilega vel, Bjarni minn, að þú ert engin fyllibytta eða wannabe poppstjarna í Reykjavík (og seint telst þú málglaður) og þess vegna skil ég ekki af hverju þú gast ekki gert mér það til geðs að hlæja með mér. Til þess var leikurinn gerður þótt vissulega fylgi öllu gríni nokkur alvara. Og auðvitað réðst ég á Brján og Harmonikkufélagið. Annað hefði verið skrýtið. Maður ræðst ekki á einhverja smælingja þegar manni finnst lífið ósanngjarnt (þótt viðbrögð þín minni óneitanlega á viðbrögð fórnarlambs og/eða smælingja)! Bitrir menn ráðast á hina stóru og óhagganlegu strúktúra í lífinu eins og þú veist.

En.

Mér finnst nú bara ágætt að það hafi fokið í þig. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem ég hef farið í taugarnar á þér og mér finnst það bara hressandi (manstu eftir rifrildinu okkar um ritstjórnarstefnu DV á Celtic Cross um árið?).

Fýlan í þér segir mér að þér þykir vænt um Brján, sem er hið besta mál, en hún segir mér líka að skilin milli þín og Brján eru í besta falli að verða nokkuð óskýr. Ekki tæki ég það persónulega þótt einhver hellti sér yfir Brján með ósvífnari hætti en ég gerði þann 19. mars sl. (verður þessi dagsetning ekki skráð í sögubækur Brján?) þótt ég hafi verið félagi í þessum klúbbi í mörg ár og sat, eins og þú margbendir á, einu sinni í stjórn.

Hvað um það og svona að öllu gríni slepptu. Sé það ekki á hreinu núna þá þykir mér það í raun og veru leitt hafi ég sært þig. Það var ekki ætlunin. Ætlunin var að skemmta þér og það mistókst. Prakkaraskapur endar jú stundum þannig.

Og fyrst við erum komnir að alvöru málsins vil ég segja þetta:

Ég svara þessu bréfi þínu einungis vegna þess að þú, minn gamli vinur, skrifaðir það. Og við þig þori ég alveg að segja að mér finnst hlutverk Brján í poppsögu Norðfjarðar stórlega ofmetið - þess vegna á félagið ekki að fá alla þessa peninga árlega. Sú merkilega saga (nú hlæja þeir sem ekki eru fæddir og uppaldir á Norðfirði) er knúin áfram af strákum og stelpum sem hafa haft lifandi áhuga á tónlist og eytt megninu af sínum vasapeningum í plötukaup hjá Höskuldi, í Nesbæ og í Tónspili (svo maður tali nú ekki um strákana sem hlustuðu á Bítlana með hjálp langbylgjunnar í gamla daga). Slíkur áhugi hefur nákvæmlega ekkert með fyrirbæri eins og Brján að gera. Nákvæmlega ekkert. Fyrirbærið í þessu tilliti er afleiðing en ekki orsök.

En ég vil ekki fara nánar útí þessa sálma hér, Bjarni minn, enda er bréfið til þín en ekki Brján. Ég er hinsvegar alveg til í ræða Brján á öðrum vettvangi. Til dæmis á Celtic Cross um næstu helgi.

Þinn vinur,

Jón Knútur.

ES. Ég legg til að við prentum bréfin okkar út og svo getum við fengið Huga til að lesa valda kafla úr þeim næst þegar við fáum okkur í glas. Um hvert atriði getum við svo diskúterað í nánari díteil.

EES. Þetta með “aldrei fór ég suður-sjálfshjálparhópinn” var sérhannað. Hvað mér fannst þetta fyndið! Ég hreinlega veltist um af hlátri þegar ég “fattaði upp á þessu” eins og börnin segja.

Bréf frá Bjarna

Þættinum hefur borist annað bréf og núna er það frá æskufélaga mínum Bjarna Frey Ágústssyni. Svona bréf eiga ekki heima í kjallaraholu og því birti ég það hér:

Það er ekki oft sem fýkur í mig við að lesa bloggsíður og allra síst þegar ég er inn á síðum æskufélaga en nú verð ég að segja að mér er öllum lokið, svona skrifum átti ég ekki von á frá þér.

Brján er samkvæmt þinni söguskoðun fyllerís og kjaftaklúbbur þeirra sem dreymir um að meika það í Reykjavík, stjórnarseta felst í því að drekka kaffi og rífast um rokkshow ekki að gera neitt sem tengist menningu. Síðan segirðu að miðað við styrki af opinberu fé eigi Brján að vera drifkraftur norðfirsks tónlistarlífs og ýjar að því að svo hafi aldrei verið. Í lokin kemur svo gleðiyfirlýsing hversu gott það sé að klúbburinn og rokkshowin séu orðin aðskilin þar sem sýningarnar séu að drepa félagsskapinn og gefur í skyn að styrkir klúbbsins séu að stórum hluta notaðir til að fjármagna rokkveislurnar.

Mér er þetta mál nokkuð skylt sem fyrrverandi formaður Brján, þáttakandi og skipuleggjandi í hinum ýmsu verkefnum en úff ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja, kannski þó á fylleríi og suðurþrá félagsmanna.

Svona ummæli dæma sig nú bara sjálf ég veit ekki hvort þú ert að grínast (vona það) eða að vísa eitthvað í eigin langanir alla vega skil ég ekki hvaðan þetta er komið og finnst þetta satt að segja einstaklega ósmekkleg ummæli, sérstaklega í ljósi þess að flestir sem þú ert þarna að kalla fyllibyttur og wannabe poppstjörnur þar með talinn ég sjálfur eiga að heita góðvinir þínir.

Hvað varðar þína stjórnarsetu get ég náttúrlega ekki dæmt um en ef stjórnarfundir fóru eingöngu í kaffiþamb og riflildi um rokkveislur segir það sig sjálft að sú stjórn hefur ekki verið starfi sínu vaxin eða misskilið hlutverk sitt. Sú stjórn sem ég þekki til stóð fyrir margvíslegum menningarviðburðum svo sem djass og blústónleikum með hinum ýmsu tónlistarmönnum fyrir utan félagskvöld, tónatitringa og rokkveislur einnig má nefna Neistaflugslagakeppni að ógleymdu Neistafluginu sjálfu, fleira væri hægt að tína til.

Þessi lýsing þín á stjórnarstörfum Brján virðist því vera hálfgert heimaskítsmát og slappur vitnisburður um eigin frammistöðu frekar en sannleikur um það starf sem unnið hefur verið í klúbbnum gegnum árin.

Hvort Brján er drifkraftur í norðfirsku tónlistarlífi má eflaust hafa sínar skoðanir á en að ýja að því og gefa í skyn að klúbburinn hafi aldrei haft frumkvæði eða staðið fyrir viðburðum sem neitt vit sé í er ekkert annað en rakalaust bull og fyrir neðan þína virðingu að halda fram, það yrði langur listi ef farið væri í að telja upp þá sem komið hafa fram á viðburðum Brján og margir hverjir stigið þar sín fyrstu spor á sviði.

Í sambandi við meðferð styrkja þá er í fyrsta lagi ekkert óeðlilegt að fá styrk til að setja upp rokkveislu frekar en leiksýningar, myndlistasýningar eða hvað annað.

Í öðru lagi hélt ég að þú vissir að í fjöldamörg ár fór ekki króna af styrkjum í rokkveislurnar menn gáfu þar alla sína vinnu og ágóðinn fór í að byggja upp húsnæði klúbbsins, tækjakaup og fleira, ekki má heldur gleyma því að klúbburinn hefur borgað upp tap Neistaflugs sem er ekki lág tala þannig að halda því fram að bróðurpartur af styrkveitingum til klúbbsins hafi farið í rokkveislurnar er ekki rétt.

Í sambandi við að rokkveislurnar séu að sjúga allt líf úr þessum klúbb þá má vel vera að þær séu orðnar of stór partur af starfseminni, en að halda því fram að þær séu að drepa félagið er alger firra og blaut tuska framan í þá menn sem hafa spilað frítt og gefið sína vinnu í mörg mörg ár til að safna peningum og byggja upp aðstöðu fyrir þennan félagsskap. Það er alveg vitað mál að þeir sem spila í rokkveislunum eyða í það miklum tíma og eru kannski ekki tilbúnir endalaust í fleiri verkefni en þá spyr ég á móti eru ekki fleiri í klúbbnum, þá kemur að hlutverki stjórnar að virkja fleiri og standa fyrir viðburðum, ef stjórnin er bara í því að drekka kaffi og rífast um rokkveislurnar þá er ekki nema von að starfsemin sé ekki mikið meiri heldur en showin, en að draga þá snilldarlegu ályktun að það sé vegna þess að Brján haldi þessar rokkveislur er vægast sagt undarlegt, fyrir utan það ef menn skoða hvað félagið hefur gert þá eru rokkveislurnar bara hluti af þeirri flóru, þó annað mætti skilja af skrifum þínum sem reyndar eru þó bara að lýsa starfi þeirrar sjórnar sem þú sast í sjálfur.

Að lokum ætla ég bara að segja, ég skil alveg að þú sért fúll yfir að fá ekki styrk frá menningarnefnd ég er sjálfur í verkefni sem sótti um en fékk ekkert og er frekar fúll yfir því, en að taka fýluna út með því að gera lítið úr og hæðast að öðrum sem fengu úthlutað er eitthvað sem ég bjóst ekki við að þú ættir til. Að þú skulir af öllum þeim sem fengu styrk velja Brján til að drulla yfir finnst mér óskiljanlegt, bæði vegna þess að klúbburinn á það ekki skilið og ekki síður vegna þess að tónlistarkjarni félagsins eru menn sem hafa verið þínir vinir og spilafélagar, það gerir þessi skrif enn undarlegri.

Bjarni Freyr Ágústsson

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Á íkornaveiðum í Victoria park, Leicester, apríl 2001

Ross talar hátt og segir stóra hluti eins og að hann ætli í ferðalag um Bandaríkin næsta sumar og að við ættum að halda partí og bjóða öllum skólanum heim til okkar. Þegar hann lætur svona minnist ég þess að hann lítur stundum á sig sem málglaðan og háværan Ítala. Pabbi hans er jú af ítölskum ættum en mamma hans er írsk. Hann er samt bara frá Bolton. Hann talar ensku með sterkum norðanhreim sem hann ýkir þegar hann talar við útlendinga eins og mig. Hann segist vera “working class” en allt bendir til þess að hann sé “middle class”.

Á milli okkar eru nokkrar bjórdósir. Á að giska helmingur þeirra tómar. Ross þrífur í eina og kastar í íkorna sem hefur fylgst með okkur í dágóða stund. Hann hittir ekki.

Við drekkum daglega. Ross vegna þess að ekkert nema áfengi slær á maníuna sem grípur hann einhverra hluta vegna um fimmleytið. Hann segist sakna mömmu sinnar. Ég drekk til að drepa tímann en ég sakna sjálfsagt mömmu minnar líka.

“I’m going to get me a squirrel and have myself a barbicue,” segir Ross og reynir að herma eftir Mick Jagger í laginu Far away eyes en í laginu hermir Mick eftir Suðurríkjamanni og tekst illa upp.

Ross rís á fætur en er óstöðugur. Hann heldur á bjórdós. Þessi á að rota kvikindið. Hann var þá ekki að fíflast, hugsa ég. Hann kastar en hittir ekki. Íkorninn forðar sér og Ross hleypur á eftir honum. Þetta minnir mig á að ég er að verða svangur. Ég reyni að rifja upp í huganum hvað sé til heima. Ég gleðst þegar það rifjast upp fyrir mér að ég á að minnsta kosti hálfa frosna pítsu. Nema Ross hafi étið hana í morgun. Andskotinn, hugsa ég. Á ensku.

Á myndinni eru (frá vinstri): Eðlisfræðineminn Matt Jones, fjölmiðlafræðineminn ég og kennaraneminn Ross Shepherd. Við erum að nálgast klímaxið í Danny boy sýnist mér.

Myndin er tekin í stofunni á jarðhæð Regent Road númer 75. Tveimur tímum síðar kýlir Ross stjórnmálafræðinemann Lars frá Danmörku en hann hafði beðið Ross um að þrífa herbergið sitt, bara svona einu sinni, enda var lyktin byrjuð að berast um allt hús.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

Þorir á meðan aðrir þegja!

Þættinum hefur borist bréf frá blaðamanninum Helga Seljan en vaxmynd af honum sást borða köku á einhverri forsíðunni fyrir stuttu:

Fyrirgefðu Jón en þessi tweed jakki er á þér eins og leðurjakki á Gísla Marteini.Raggi Bjarna hefði aldrei sungið “flottur jakki - tweed, tweed, tweedili-dí” ef þessi hefði verið kominn fram þá.

Var það ekki örugglega þú sem eyddir hálfu kvöldi í að minniháttast yfir frakkanum mínum sem þér fannst full stórveldislegur ef ég man rétt.

Tek ekki afstöðu til svipsins; en hann minnir mig á svipinn á ónefndum fyrrum útvarpsmanni á Aðalstöðinni; þar sem hann stóð og beið þess að fá dóm fyrir að hafa gert full mikið úr fantasíum sínum - sem snerust aðallega um börn undir fermingaraldri og MSN-spjall forritið.

Er skeggið teiknað á þig eftirá?

Það besta við þessa mynd er blokkinn, jú og myndasmiðurinn.

Sem sagt: Myndavélin snýr í vitlausa átt!

Fært undir Óflokkað. 6 ummæli »

Bjartur dagur

Fjalar keypti safnplötuna Vital Idol með Billy Idol í plötubúðinni Nesbæ sennilega einhvern tímann sumarið 1985. Þetta var önnur platan hans en hann átti líka debjútið með Duran Duran. Kaupin á Idol táknuðu að smekkur Fjalars var að harðna en minn var um þetta leyti orðinn nokkuð harður. Búinn að fela Arenu með Duran undir rúmi og þess í stað stillti ég upp, þannig að allir vinir mínir sáu (faldi þær að vísu þegar mamma kom inn til mín enda hafði ég keypt þær með peningum sem ég stal úr veskinu hennar), Come out and play með Twisted sister og Fly on the wall með AC/DC. Ég hafði í nokkrar vikur verið skýr í afstöðu minni um að Fjalar tæki upp svipaða siði.

Við gengum með Idol í hvítum plastpoka inn Melagötu, yfir franska mel og áleiðis inn Miðgarð þar sem Fjalar átti heima. Hann fór inn en ég beið útá stétt. Ég hefði kveikt mér í sígarettu hefði ég reykt en ég var bara tíu ára. Fjalar fór inní herbergið sitt og náði í Duran Duran en þeir virtust hafa falið sig á bak við Gráskalla-kastala sem við vorum líka hættir að leika okkur með. Hann setti þá í strigapoka, sem pabbi hans notaði í kartöfluræktinni fyrir ofan hús, og kom með hann út. Sólin skein skært eins og í öllum fallegum æskuminningum.

Fjalar tók plötuna úr pokanum og horfði spyrjandi á mig. Ég vissi hver spurningin var og kinkaði kolli. Sýningin hófst:

Fjalar lagðist á hnén og nuddaði plötunni við Miðgarð en þá var þar býsna sjarmerandi malarvegur. Á meðan hann þjösnaðist öskraði hann: “Hafiði þetta djöfulsins drullusokkarnir ykkar!” Svona eftir á að hyggja hugsa ég að Fjalar hafi svona í og með verið að hefna sín á þorpskelfinum Ægi sem gerði líf okkar erfitt um þetta leyti en Ægir var með hárgreiðslu eins og bassaleikarinn John Taylor. Eða svona hér um bil. Hann var allavega ekki snoðaður eins og flest ellefu ára gömul hrekkjusvín. Hvað þá rauðhærður eins og hrekkjusvínin í barnabókmenntunum.

(Hefði einhver staðið álengdar og horft á hefði sá hinn sami séð risastóran keilulaga rykmökk stíga upp, líkt og hvirfilbylur væri um það bil að leggja húsin við Miðgarð í rúst.)

Þegar Fjalar hafði lokið sér af, andlitið rykugt náttúrlega, sýndi hann mér plötuna. Ég tók við henni og skoðaði. Á henni voru engar rákir lengur. Hún var slétt viðkomu eins og handarbökin okkar. Fyrsta platan með Duran Duran yrði aldrei spiluð framar. Ég rétti Fjalari plötuna og kinkaði kolli. Hann tók við henni en allt í einu virtist hann verða var við lífsmark því í einskonar krampakasti henti hann henni í götuna þannig að hún brotnaði í þrennt. Brotin tíndum við svo saman og settum aftur í pokann. Pokinn var þyngdur með grjóti og fór svo í sjóinn fyrir neðan netagerðina frægu.

Við horfðum á hann sökkva. Fjalar horfði á mig og brosti. Ég kinkaði kolli. Ólíkt sumum pokum fannst þessi aldrei.

Fært undir Óflokkað. 5 ummæli »

Tilkynningarskylda blokkaríbúa eða sektarkennd manns sem er enn í náttsloppnum klukkan hálf tvö

1. Og þá vil ég segja við starfsmann Kaupfélagsins, sem þóttist hafa gómað mig í ávaxtadeildinni í gærmorgun við að borða uppúr vínberjakassanum, að um leið og hann hvatti mig með orðunum “það eruð menn eins og þú sem haldið verðinu uppi” gekk ég rakleiðis að afgreiðslukassanum og keypti vínberjaklasann sem ég tók sýnishornið úr og borgaði fullt verð fyrir hann. Ég er enginn þjófur. Þá keypti ég líka eintak af Austfirskum draugasögum sem enginn kaupir. Það gerði ég af góðmennskunni einni saman.

2. Ég vil líka nota tækifærið og koma því áleiðis til nágranna minna að lyftan er ekki leiktæki fyrir börnin ykkar.

3. Ég er aukinheldur ósáttur við umgengnina fyrir utan húsið. Viljiði vinsamlegast drepa í sígarettunum ykkar í þar til gerðu stubbahúsi. Kaupvangur 41 lyktar orðið eins og Hlemmur daginn eftir menningarnótt. Sveiattan!

Fært undir Óflokkað. 6 ummæli »

Bömmer

Æi, já. Ég gleymdi að segja ykkur að léttpönkaði dreifbýlisblúsinn Nesk fékk ekki styrk frá menningarnefnd Fjarðabyggðar. Fíflin ákváðu í staðinn að styrkja fyllerís- og málfundafélagið og/eða “aldrei fór ég suður”-sjálfshjálparhópinn Brján í fimmtánda skipti. Já, og hið framsækna Félag harmonikkuunnenda fær hundrað þúsund kall eða eitthvað. Er ég svekktur? Auðvitað! Ég er nú bara human after all!!!

Útgáfa Nesk er sumsé offísjallí í uppnámi. Hvað ætlar umbinn að gera núna? Ætlar hann að fara heim til bæjarstýrunnar í Fjarðabyggð og kvarta? Ætlar hann að standa fyrir utan Tónspil og mótmæla? Ætlar hann í hungurverkfall? Ha? Umbi?

Ahhh…fíla mig loksins eins og hin menningarlegu úrhrökin á Austurlandi sem fá aldrei styrk, fá aldrei bitling. Líkt og þau ætla ég að kenna kommunum í Neskaupstað um allt. Byrja strax á morgun. Stay tuned.

JK

Í stofunni eru fleiri tugir bóka sem ég hef aldrei lesið - bara keypt. Ein af þeim er Big Sur eftir Jack Kerouac sem ég byrjaði svo loksins að lesa í gær. Mér finnst líklegt að ég hafi keypt hana fyrir Ameríkutúrinn í hittiðfyrra en ég ætlaði að spandera nokkrum dögum í göngutúra við Big Sur.  Af hverju? Jú, Beach boys sungu um þennan stað á plötunni Holland.

En ég hætti við það. Eyddi frekar lengri tíma í Lee Vining í N-Kalíforníu.

Ég er ekki kominn langt með hana. Hún liggur opin fyrir framan mig á blaðsíðum 34/35. Í inngangi segir að JK hafi verið “ljúfur” rithöfundur (eða “tender”) og að hvergi sé að finna nokkra árásargirni í garð náungans í bókunum hans. Ég er sammála. Þegar maður eyðir megninu af þeim tíma sem maður gefur sér til lesturs í blogg og dagblöð er góð tilbreyting að lesa menn eins og Kerouac.

Með líferni sínu sýndi JK að yfir honum var lítið kyrrð í raun. En í bókunum hans má stundum finna svo mikla friðsæld að manni langar að leggja öll skylduverk frá sér, setjast útá svalir, kveikja sér í vindli og drekka sig fullan. Gefa skít í þetta búrgeisalíferni með sínum eindögum og skilafrestum.

Tóndæmi:

Summer afternoon -

Impatiently chewing

The Jasmine leaf

Þessa hæku samdi JK á bls. 34 rétt eftir að hafa lagað sér te. Mig langar til að breyta henni aðeins svo hún henti mér betur:

Summer afternoon -

Patiently chewing

The Jasmine leaf

Svona. Þetta er nokkuð ljúft.

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Föstudagsbúggí

Jæja, loksins laus stund en þessa daga nota ég til að fylla út umsókn í Evrópusambandssjóð (mikið held ég að díónýsískar hetjur eins og Jim Morrison yrðu vonsviknar ef þær heyrðu að einhver eyddi dögunum sínum í svona lagað…). Þeir segja að þessir sjóðir fari sífellt stækkandi af því að enginn nennir að sækja um. Ég efast ekki um það eitt sekúndubrot að eins og alltaf þá hafi þeir rétt fyrir sér.

Þar sem ekki eru nema fimmtíu mínútur þangað til vaktin mín byrjar ætla ég að sleppa því að blogga og fá mér þess í stað göngutúr. Skil eftir einn texta eftir Bob Dylan af plötunni Blood on the tracks (kannski hef ég birt hann áður). Þetta finnst mér er einn af hans allra fallegustu textum og ef ég er rétt stemmdur þá græt ég þegar Dylan syngur hann.

Vessgú:

I’ve seen love go by my door
It’s never been this close before
Never been so easy or so slow.
Been shooting in the dark too long
When somethin’s not right it’s wrong
Yer gonna make me lonesome when you go.

Dragon clouds so high above
I’ve only known careless love,
It’s always hit me from below.
This time around it’s more correct
Right on target, so direct,
Yer gonna make me lonesome when you go.

Purple clover, Queen Anne lace,
Crimson hair across your face,
You could make me cry if you don’t know.
Can’t remember what I was thinkin’ of
You might be spoilin’ me too much, love,
Yer gonna make me lonesome when you go.

Flowers on the hillside, bloomin’ crazy,
Crickets talkin’ back and forth in rhyme,
Blue river runnin’ slow and lazy,
I could stay with you forever
And never realize the time.

Situations have ended sad,
Relationships have all been bad.
Mine’ve been like Verlaine’s and Rimbaud.
But there’s no way I can compare
All those scenes to this affair,
Yer gonna make me lonesome when you go.

Yer gonna make me wonder what I’m doin’,
Stayin’ far behind without you.
Yer gonna make me wonder what I’m sayin’,
Yer gonna make me give myself a good talkin’ to.

I’ll look for you in old Honolulu,
San Francisco, Ashtabula,
Yer gonna have to leave me now, I know.
But I’ll see you in the sky above,
In the tall grass, in the ones I love,
Yer gonna make me lonesome when you go.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »