Bjartur dagur

Fjalar keypti safnplötuna Vital Idol með Billy Idol í plötubúðinni Nesbæ sennilega einhvern tímann sumarið 1985. Þetta var önnur platan hans en hann átti líka debjútið með Duran Duran. Kaupin á Idol táknuðu að smekkur Fjalars var að harðna en minn var um þetta leyti orðinn nokkuð harður. Búinn að fela Arenu með Duran undir rúmi og þess í stað stillti ég upp, þannig að allir vinir mínir sáu (faldi þær að vísu þegar mamma kom inn til mín enda hafði ég keypt þær með peningum sem ég stal úr veskinu hennar), Come out and play með Twisted sister og Fly on the wall með AC/DC. Ég hafði í nokkrar vikur verið skýr í afstöðu minni um að Fjalar tæki upp svipaða siði.

Við gengum með Idol í hvítum plastpoka inn Melagötu, yfir franska mel og áleiðis inn Miðgarð þar sem Fjalar átti heima. Hann fór inn en ég beið útá stétt. Ég hefði kveikt mér í sígarettu hefði ég reykt en ég var bara tíu ára. Fjalar fór inní herbergið sitt og náði í Duran Duran en þeir virtust hafa falið sig á bak við Gráskalla-kastala sem við vorum líka hættir að leika okkur með. Hann setti þá í strigapoka, sem pabbi hans notaði í kartöfluræktinni fyrir ofan hús, og kom með hann út. Sólin skein skært eins og í öllum fallegum æskuminningum.

Fjalar tók plötuna úr pokanum og horfði spyrjandi á mig. Ég vissi hver spurningin var og kinkaði kolli. Sýningin hófst:

Fjalar lagðist á hnén og nuddaði plötunni við Miðgarð en þá var þar býsna sjarmerandi malarvegur. Á meðan hann þjösnaðist öskraði hann: “Hafiði þetta djöfulsins drullusokkarnir ykkar!” Svona eftir á að hyggja hugsa ég að Fjalar hafi svona í og með verið að hefna sín á þorpskelfinum Ægi sem gerði líf okkar erfitt um þetta leyti en Ægir var með hárgreiðslu eins og bassaleikarinn John Taylor. Eða svona hér um bil. Hann var allavega ekki snoðaður eins og flest ellefu ára gömul hrekkjusvín. Hvað þá rauðhærður eins og hrekkjusvínin í barnabókmenntunum.

(Hefði einhver staðið álengdar og horft á hefði sá hinn sami séð risastóran keilulaga rykmökk stíga upp, líkt og hvirfilbylur væri um það bil að leggja húsin við Miðgarð í rúst.)

Þegar Fjalar hafði lokið sér af, andlitið rykugt náttúrlega, sýndi hann mér plötuna. Ég tók við henni og skoðaði. Á henni voru engar rákir lengur. Hún var slétt viðkomu eins og handarbökin okkar. Fyrsta platan með Duran Duran yrði aldrei spiluð framar. Ég rétti Fjalari plötuna og kinkaði kolli. Hann tók við henni en allt í einu virtist hann verða var við lífsmark því í einskonar krampakasti henti hann henni í götuna þannig að hún brotnaði í þrennt. Brotin tíndum við svo saman og settum aftur í pokann. Pokinn var þyngdur með grjóti og fór svo í sjóinn fyrir neðan netagerðina frægu.

Við horfðum á hann sökkva. Fjalar horfði á mig og brosti. Ég kinkaði kolli. Ólíkt sumum pokum fannst þessi aldrei.

Fært undir Óflokkað.

5 ummæli við “Bjartur dagur”

 1. Fjalar ritaði:

  The day I became…..not a boy. Eg verd ther aevinlega thakklatur.

 2. Fjalar ritaði:

  Duran Duran leikurinn….haha sjitt…..it’s all coming back….hvad var i gangi ? Slatrunin a plotuni tengist thvi einhvad.

 3. Stefán Arason ritaði:

  Maður hættir ekki að leika sér að He-Man þó maður sé orðinn 10 ára Jón! Ég er alveg viss um að þið lékuð ykkur aðeins lengur að þeim en þetta.

  Konan hans Janusar, Petra, sá athæfi ykkar, og stofnaði því mæðrafélagið “Vorblómið”, til hjálpar ungmennum á villigötum eins og ykkur. Uppúr þessu félagi slitnaði þegar Petra neitaði að gefa félagasystrum sínum plastpoka í lágvöruverslun þeirra hjóna í kjallaranum.

 4. Jón Knútur Ásmundsson ritaði:

  Hahaha! Veistu, Stefán. Ég man hvenær ég hætti að leika mér með stjörnustríðskalla (var aldrei í He-Man). Ég var tíu ára útí garði að leika mér þegar Matthildur bekkjarsystir mín kom að mér og sagði: “Agalegt barn ertu!” Svo valhoppaði hún hlæjandi í burtu. Mikið skammaðist ég mín.

  Þetta með Petru er hillaríus…

 5. Stefán Arason ritaði:

  Já…ég held ég hafi upplifað svipað þegar ég “átti” að hætta að renna mér á þotu.

  En varðandi Petru, þá bara varð ég bara að draga fram fleiri minningar úr þessu elsta vígi malarvega í Neskaupstað.