Á íkornaveiðum í Victoria park, Leicester, apríl 2001

Ross talar hátt og segir stóra hluti eins og að hann ætli í ferðalag um Bandaríkin næsta sumar og að við ættum að halda partí og bjóða öllum skólanum heim til okkar. Þegar hann lætur svona minnist ég þess að hann lítur stundum á sig sem málglaðan og háværan Ítala. Pabbi hans er jú af ítölskum ættum en mamma hans er írsk. Hann er samt bara frá Bolton. Hann talar ensku með sterkum norðanhreim sem hann ýkir þegar hann talar við útlendinga eins og mig. Hann segist vera “working class” en allt bendir til þess að hann sé “middle class”.

Á milli okkar eru nokkrar bjórdósir. Á að giska helmingur þeirra tómar. Ross þrífur í eina og kastar í íkorna sem hefur fylgst með okkur í dágóða stund. Hann hittir ekki.

Við drekkum daglega. Ross vegna þess að ekkert nema áfengi slær á maníuna sem grípur hann einhverra hluta vegna um fimmleytið. Hann segist sakna mömmu sinnar. Ég drekk til að drepa tímann en ég sakna sjálfsagt mömmu minnar líka.

“I’m going to get me a squirrel and have myself a barbicue,” segir Ross og reynir að herma eftir Mick Jagger í laginu Far away eyes en í laginu hermir Mick eftir Suðurríkjamanni og tekst illa upp.

Ross rís á fætur en er óstöðugur. Hann heldur á bjórdós. Þessi á að rota kvikindið. Hann var þá ekki að fíflast, hugsa ég. Hann kastar en hittir ekki. Íkorninn forðar sér og Ross hleypur á eftir honum. Þetta minnir mig á að ég er að verða svangur. Ég reyni að rifja upp í huganum hvað sé til heima. Ég gleðst þegar það rifjast upp fyrir mér að ég á að minnsta kosti hálfa frosna pítsu. Nema Ross hafi étið hana í morgun. Andskotinn, hugsa ég. Á ensku.

Á myndinni eru (frá vinstri): Eðlisfræðineminn Matt Jones, fjölmiðlafræðineminn ég og kennaraneminn Ross Shepherd. Við erum að nálgast klímaxið í Danny boy sýnist mér.

Myndin er tekin í stofunni á jarðhæð Regent Road númer 75. Tveimur tímum síðar kýlir Ross stjórnmálafræðinemann Lars frá Danmörku en hann hafði beðið Ross um að þrífa herbergið sitt, bara svona einu sinni, enda var lyktin byrjuð að berast um allt hús.

Fært undir Óflokkað.

3 ummæli við “Á íkornaveiðum í Victoria park, Leicester, apríl 2001”

 1. Umbi ritaði:

  Fín saga eins og oftast þegar Ross er með í för. En, að birta mynd með þessu …. það er eins og … bíddu, er einhver í Holyfockingwood að falast eftir kvikmyndaréttinum … eða?

  Já, nú skil ég. Bók er ekki nóg. Þetta verður að vera bíó. Gelgjugubbsbíóblúbb.

 2. Eg. ritaði:

  Þú ert óborganlegur og ég hlakka ósegjanlega mikið til þegar bókin kemur út. Get ég pantað áritað eintak? Skítt að þú skulir ekki hafa fengið útgáfustyrk, þú ert nú músikant líka!

 3. Jón Knútur. ritaði:

  Umbi: Ross er til og ekkert athugavert við það að birta mynd af honum. Þegiðu bara og haltu áfram að editera. En bíómynd hljómar vel. Ég vil að Axl Rose leiki mig.

  Elma: Já, þú segir nokkuð. Kannski læt ég hljóðsnældu fylgja með þar sem ég syng ballads of the sixties. Jú, þú færð áritað eintak.