Bréf frá Bjarna

Þættinum hefur borist annað bréf og núna er það frá æskufélaga mínum Bjarna Frey Ágústssyni. Svona bréf eiga ekki heima í kjallaraholu og því birti ég það hér:

Það er ekki oft sem fýkur í mig við að lesa bloggsíður og allra síst þegar ég er inn á síðum æskufélaga en nú verð ég að segja að mér er öllum lokið, svona skrifum átti ég ekki von á frá þér.

Brján er samkvæmt þinni söguskoðun fyllerís og kjaftaklúbbur þeirra sem dreymir um að meika það í Reykjavík, stjórnarseta felst í því að drekka kaffi og rífast um rokkshow ekki að gera neitt sem tengist menningu. Síðan segirðu að miðað við styrki af opinberu fé eigi Brján að vera drifkraftur norðfirsks tónlistarlífs og ýjar að því að svo hafi aldrei verið. Í lokin kemur svo gleðiyfirlýsing hversu gott það sé að klúbburinn og rokkshowin séu orðin aðskilin þar sem sýningarnar séu að drepa félagsskapinn og gefur í skyn að styrkir klúbbsins séu að stórum hluta notaðir til að fjármagna rokkveislurnar.

Mér er þetta mál nokkuð skylt sem fyrrverandi formaður Brján, þáttakandi og skipuleggjandi í hinum ýmsu verkefnum en úff ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja, kannski þó á fylleríi og suðurþrá félagsmanna.

Svona ummæli dæma sig nú bara sjálf ég veit ekki hvort þú ert að grínast (vona það) eða að vísa eitthvað í eigin langanir alla vega skil ég ekki hvaðan þetta er komið og finnst þetta satt að segja einstaklega ósmekkleg ummæli, sérstaklega í ljósi þess að flestir sem þú ert þarna að kalla fyllibyttur og wannabe poppstjörnur þar með talinn ég sjálfur eiga að heita góðvinir þínir.

Hvað varðar þína stjórnarsetu get ég náttúrlega ekki dæmt um en ef stjórnarfundir fóru eingöngu í kaffiþamb og riflildi um rokkveislur segir það sig sjálft að sú stjórn hefur ekki verið starfi sínu vaxin eða misskilið hlutverk sitt. Sú stjórn sem ég þekki til stóð fyrir margvíslegum menningarviðburðum svo sem djass og blústónleikum með hinum ýmsu tónlistarmönnum fyrir utan félagskvöld, tónatitringa og rokkveislur einnig má nefna Neistaflugslagakeppni að ógleymdu Neistafluginu sjálfu, fleira væri hægt að tína til.

Þessi lýsing þín á stjórnarstörfum Brján virðist því vera hálfgert heimaskítsmát og slappur vitnisburður um eigin frammistöðu frekar en sannleikur um það starf sem unnið hefur verið í klúbbnum gegnum árin.

Hvort Brján er drifkraftur í norðfirsku tónlistarlífi má eflaust hafa sínar skoðanir á en að ýja að því og gefa í skyn að klúbburinn hafi aldrei haft frumkvæði eða staðið fyrir viðburðum sem neitt vit sé í er ekkert annað en rakalaust bull og fyrir neðan þína virðingu að halda fram, það yrði langur listi ef farið væri í að telja upp þá sem komið hafa fram á viðburðum Brján og margir hverjir stigið þar sín fyrstu spor á sviði.

Í sambandi við meðferð styrkja þá er í fyrsta lagi ekkert óeðlilegt að fá styrk til að setja upp rokkveislu frekar en leiksýningar, myndlistasýningar eða hvað annað.

Í öðru lagi hélt ég að þú vissir að í fjöldamörg ár fór ekki króna af styrkjum í rokkveislurnar menn gáfu þar alla sína vinnu og ágóðinn fór í að byggja upp húsnæði klúbbsins, tækjakaup og fleira, ekki má heldur gleyma því að klúbburinn hefur borgað upp tap Neistaflugs sem er ekki lág tala þannig að halda því fram að bróðurpartur af styrkveitingum til klúbbsins hafi farið í rokkveislurnar er ekki rétt.

Í sambandi við að rokkveislurnar séu að sjúga allt líf úr þessum klúbb þá má vel vera að þær séu orðnar of stór partur af starfseminni, en að halda því fram að þær séu að drepa félagið er alger firra og blaut tuska framan í þá menn sem hafa spilað frítt og gefið sína vinnu í mörg mörg ár til að safna peningum og byggja upp aðstöðu fyrir þennan félagsskap. Það er alveg vitað mál að þeir sem spila í rokkveislunum eyða í það miklum tíma og eru kannski ekki tilbúnir endalaust í fleiri verkefni en þá spyr ég á móti eru ekki fleiri í klúbbnum, þá kemur að hlutverki stjórnar að virkja fleiri og standa fyrir viðburðum, ef stjórnin er bara í því að drekka kaffi og rífast um rokkveislurnar þá er ekki nema von að starfsemin sé ekki mikið meiri heldur en showin, en að draga þá snilldarlegu ályktun að það sé vegna þess að Brján haldi þessar rokkveislur er vægast sagt undarlegt, fyrir utan það ef menn skoða hvað félagið hefur gert þá eru rokkveislurnar bara hluti af þeirri flóru, þó annað mætti skilja af skrifum þínum sem reyndar eru þó bara að lýsa starfi þeirrar sjórnar sem þú sast í sjálfur.

Að lokum ætla ég bara að segja, ég skil alveg að þú sért fúll yfir að fá ekki styrk frá menningarnefnd ég er sjálfur í verkefni sem sótti um en fékk ekkert og er frekar fúll yfir því, en að taka fýluna út með því að gera lítið úr og hæðast að öðrum sem fengu úthlutað er eitthvað sem ég bjóst ekki við að þú ættir til. Að þú skulir af öllum þeim sem fengu styrk velja Brján til að drulla yfir finnst mér óskiljanlegt, bæði vegna þess að klúbburinn á það ekki skilið og ekki síður vegna þess að tónlistarkjarni félagsins eru menn sem hafa verið þínir vinir og spilafélagar, það gerir þessi skrif enn undarlegri.

Bjarni Freyr Ágústsson

Fært undir Óflokkað.

Ein ummæli við “Bréf frá Bjarna”

  1. Valdi ritaði:

    Flottur Pistill Bjarni.