Brauð og leikar

Það er greinilegt að ritdeilur eru líklegastar til vinsælda í bloggheimum. Helgarlesturinn á þessari síðu jókst talsvert þegar æskuvinirnir tókust á um Brján og ég skal ekki neita því að það hafði nokkur áhrif á lífseiglu deilunnar - hvað mig varðar allavega. Maður hættir ekki bara og gengur útaf vellinum þegar skríllinn heimtar meira.

Deilur og hasar. Brauð og leikar. Give the people what they want. Það segi ég að minnsta kosti. Og Ray Davies reyndar líka ef þið trúið mér ekki. Erum við ekki annars í (rokk)show business?

Einu sinni í gamla daga kom út tölublað af Austurglugganum með sviðsettri mynd af morði á forsíðunni (tveimur dögum áður, þegar blaðið fór í prentun, vissum við ekki að gamall vinur minn var grunaður um verknaðinn. Við héldum bara að þetta væru einhverjir útlendingar, litháíska mafían eða eitthvað svoleiðis) og blaðið seldist upp. Í næsta tölublaði fylgdum við þessu eftir með forsíðufyrirsögninni “Dóp á Kárahnjúkum”. Á bakinu vorum við svo með tvær hasarfréttir. Önnur fjallaði um skógræktarstjórann á Héraði sem var “ósáttur við feitt kjet í Kaupfélaginu” og hin um Norðfirðing á Reyðarfirði sem var sannfærður um að kvenfélagið á staðnum væri að ofsækja sig. Gott stöff sumsé.

Blaðið seldist upp samdægurs og ég þurfti að panta aukaeintök frá prentsmiðjunni til að anna eftirspurn. Helgi Seljan flaug sérstaklega til Reykjavíkur til að ræða um dóp á Kárahnjúkum í spjallþáttum en spjallþáttastjórnendurnir voru ekki síður forvitnir um þetta furðulega héraðsfréttablað sem í voru fréttir er, tja, áttu kannski heima einhvers staðar annars staðar en í innansveitarkróníkunni.

En já. Við vorum búnir að meika það.

Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís. Uppfrá þessu var byrjað að kalla Austurgluggann “Litla DV” sem var sennilega ekki gott fyrir blað sem sárlega vantaði fleiri áskrifendur og mátti alls ekki tapa þeim fáu sem það hafði. Það sagði ég að minnsta kosti við háskólanemann sem hringdi í mig um daginn. Hann var að skrifa ritgerð um Austurgluggann (þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var stoltur) og hann sagðist hafa heyrt að illa hefði gengið að reka hasarfréttablað útá landi. Ég gleymdi hinsvegar að segja honum að ég held að það gangi líka illa að reka meinlausu héraðsfréttablöðin. Það gengur bara illa að reka héraðsfréttablöð. Punktur.

Lestur á síðunni minni er aftur kominn í venjulegt horf en það er óþarfi að fara á taugum. Ég hef enga auglýsendur til að hafa áhyggjur af, hvað þá áskrifendur. Byrja sumsé aftur að skrifa um Bob Dylan á morgun…

Fært undir Óflokkað.

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.