Hugleiðing um Þorpið

Ég fór til Reykjavíkur um helgina. Sunnudeginum eyddi ég á kaffihúsi og las Post office eftir Bukowski í þriðja sinn. Á kápunni segir að bókin sé sú fyndnasta sem nokkurn tímann hefur verið skrifuð. Ég er sammála.

Á einum stað í bókinni flytur söguhetjan, Henry Chinaski, frá stórborginni Los Angeles til þorps í Texas. Í þorpinu líður honum vel. Hann “á” það og meinar að í því er hann nafn- og fortíðarlaus: Hann er frjáls maður. Í Los Angeles er þessu þveröfugt farið. Hann er fastur í stöðu póstburðarmanns, hann er þreyttur á sömu börunum, sömu vinunum og sömu konunum. Þetta þorp á hann.

Bukowski skrifar um stórborgina Los Angeles á svipaðan hátt og ótal margir rithöfundar hafa skrifað um smáþorp. Það ber aldrei neitt nýtt fyrir augu þorparans í þorpinu. Fyrir suma þorpara táknar það öryggi en fyrir aðra, eins og Chinaski, táknar það stöðnun andans. Örvæntingin er óumflýjanleg og niðurstaðan er taugaáfall.

En Chinaski leitar aftur til Los Angeles. Hann leitar aftur heim í þorpið sitt, í öryggið. Hann er skuldbundinn. Býst ég við.

Fært undir Óflokkað.

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.