Laugar

Í borginni fór ég í Laugar. Þetta baðhús minnir mig á Graceland í Memphis, álíka smekklaust og álíka úrkynjað, en ég var timbraður og naut þess að rölta um “hellinn” hálf nakinn með félögum mínum. Sumar konurnar voru berbrjósta og sumir karlarnir án fata yfirleitt. Karlarnir töluðu mikið um að fá sér “einn kaldan í kvöld” og rækjust þeir á konur sem þeir þekktu voru þær umsvifalaust spurðar að því hvort þær væru ekki “ferskar”. Þær tístuðu og játuðu. Þær voru ferskar.

Púrítaninn í mér hugsaði að endalokin hlytu að vera handan við hornið.

“Bjössi í World Class” er hann kallaður maðurinn sem setti upp myndavélar í búningsklefanum í Laugum í hittiðfyrra. Hann þurfti að finna þjóf. Þetta varð síðan mikið fréttamál, eins og þið munið sjálfsagt, og eins og svo oft í svona skandölum þá skildi viðfangsefnið hreinlega ekki hvaða læti þetta voru í fjölmiðlum. Stormur í vatnsglasi, sagði Bjössi örugglega.

Og hann var einlægur í skilningsleysi sínu. Honum fannst nákvæmlega ekkert athugavert við að setja upp myndavélar í búningsklefanum. Nákvæmlega ekkert!

Eftir að hafa heimsótt Laugar get ég ekki annað en sýnt skilningsleysi Bjössa smá skilning. Hann veit nefnilega að fáir nota spegla jafn mikið og einmitt viðskiptavinir Lauga og hann veit þar með líka að flestir viðskiptavinirnir yrðu nú líklega bara soldið ánægðir ef þeir vissu að þeir væru í mynd. Gott ef þeir spenntu ekki bara vöðvana …

Fært undir Óflokkað.

Ein ummæli við “Laugar”

  1. Siggi Óla ritaði:

    Jamm….það er eitthvað krípí við laugar. Samt er spa-ið fjandi kósí. A.m.k. fílaði ég það. Man reyndar ekki eftir neinum berbrjósta stelpum, þó margar þeirra hafi verið huggulegar.