Dagur 2

Kæra dagbók,

Ég hélt áfram að safna skeggi í dag en nú er liðin vika síðan söfnunin hófst. Þetta er í annað sinn sem ég reyni að safna skeggi. Í fyrra skiptið safnaði ég reyndar bara yfirvaraskeggi. Ég gerði það fyrir föður minn sem þá var á sextugasta aldursári og hefur, eins og þú veist, eitt fallegasta yfirvaraskeggið á mið-Austurlandi. Þér að segja gekk það nokkuð vel og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sagði að ég liti út eins og þýsk klámstjarna þega ég hitti hann í teiti hjá ungum jafnaðarmönnum. Ég vissi auðvitað ekkert um það en mér þótti vænt um viðurkenningu formannsins þótt hann sé lúser. Hann er samt vænsti kall.

Ég rakaði það af mér stuttu síðar þegar ég sá bassaleikarann í Botnleðju í miðbæ Reykjavíkur skarta yfirvaraskeggi. Ég vildi ekki líta út eins og fífl en hann er sjálfsagt vænsti kall líka.

Kæra dagbók, eins og venjulega er ég útbrunninn í vinnunni minni og í dag hringdi ég í konu sem auglýsti í lókalblaðinu eftir starfskrafti. Hún sagði að ég væri “ofmenntaður”.

“Ég þyrfti að borga þér svo há laun!” sagði hún og hló dillandi hlátri eins og viðrinið í Spilverki þjóðanna. Hvað var svona fokkin fyndið, heimska belja!? Neinei, ég meinti þetta ekki.

Þegar maður sækir um lélegt starf og fær það ekki þá er allavega eitt komið á hreint: Maður er lúser. En jæja. Það gengur bara betur næst.

Kæra dagbók, mér gengur illa að fá vinnu þurfi ég að fara í viðtal. Ég veit alveg hvers vegna. Mér finnst svona viðtöl bara yfirborðsleg og heimskuleg. Og já, umfram allt fyrir neðan mína virðingu. Svo þú vitir það þá tala ég af reynslu. Einu sinni, þegar ég var nýkominn heim úr námi, fór ég nefnilega í viðtal til Mannafls eða einhverrar svona ráðningarskrifstofu. Drengurinn sem tók viðtalið við mig var nokkrum árum yngri en ég, líklega nýútskrifaður úr viðskiptafræði eða mannauðseitthvað. Hann var í óaðfinnanlegum jakkafötum, með óaðfinnanlega hárgreiðslu og lyktin af honum var something else. Líklega nýjasti ilmurinn frá Puma. Eða Hugo. En viðtalið var einhvern veginn svona:

Drengurinn í jakkafötunum: Ég sé að þú ert nýkominn heim úr námi.

Ég: Já, það er rétt.

DÍJ: Varstu í Englandi?

Ég: Já, stendur það ekki þarna? Ég lýg engu sko.

DÍJ: Neinei. Ég meinti það ekki.

Ég: Allt í lagi. Ég er bara soldið stressaður sko. Hef aldrei farið í svona viðtal áður. Alltaf fengið vinnu í gegnum klíku sko…

DÍJ: Ha?

Ég: Nei, ég er að djóka! En ég er samt soldið stressaður.

DÍJ: Ha, nei, já. Þú þarft ekki að vera stressaður. Við skulum bara hafa þetta óformlegt. Viltu ekki bara segja mér frá meistararitgerðinni þinni?

Ég: Tja, ég notaði hugmyndir franskra póststrúktúralista eins og Derrida og amerískra póstmódernista eins og Lawrance Grossbergs, eða Larry Grossbergs, til að varpa ljósi á íslenskt hipphopp. Ég orðræðugreindi íslenska rapptexta og reyndi að sjá hvernig tónlistarmennirnir “authentíkera” tónlistina en eins og þú veist skiptir miklu máli í hipphoppi að vera “ekta”. Keep it real eða þannig. Ritgerðin hét einmitt Keeping it real in an unreal world. Reyndar er hugmyndin um að vera ekta áberandi þáttur í hugmyndafræði rokktónlistar og…

DÍJ (hikandi): Einmitt. Athyglisvert…? Og ehhh…og…áhugavert…? Eða já…? (Hann endaði allt sem hann sagði í alvörunni með spurningamerki)

Ég: Já, þú getur lesið um rannsóknina í Veru sko. Ég skrifaði grein. Mér finnst mikilvægt að koma þessari þekkingu til fólksins sko. Fengið rosa viðbrögð sko.

DÍJ: Já, einmitt.

(Þögn)

DÍJ: Já. Einmitt sko.

(Þögn)

DÍJ: Ehhh…Viltu bæta einhverju við?

Ég: Ja, ertu með einhverja vinnu handa mér?

DÍJ: Þú segir nokkuð já! Haha! Þú ert aldeilis brattur!

(Þögn)

DÍJ (alvarlegur): Þú ert sumsé sérfræðingur í hipphoppi?

Ég: Ja, þannig séð já.

DÍJ: Þú vilt ekki vinna í banka?

Góða nótt, elsku dagbókin mín. Ég hitti þig á morgun. Ég lofa.

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Kæra dagbók

Ég hef ákveðið að taka upp nýjan stíl á þessu bloggi í nokkra daga. Ég ætla að halda úti venjulegri dagbók líkt og unglingsstúlkur gera og segja frá hverjum degi á eins hlutlægan hátt og kostur er. Hver dagbókarfærsla hefst með orðunum “Kæra dagbók” og svo trúi ég henni fyrir leyndarmálum mínum. Ég ætla ekki að þyrma neinum nema kærustunni minni. Með því er ég auðvitað strax búinn að eyðileggja þetta gelgjuþema en þannig verður það að vera. Við búum jú saman.

Kæra dagbók,

Í dag ákvað ég að halda dagbók. Ég hef ekki haldið dagbók í sjö ár en fyrstu vikurnar í Leicester skrásetti ég nokkuð nákvæmlega hvað bar fyrir augu á hverjum degi. Það er sorgleg lesning skal ég segja þér og ekki eitthvað sem ég heimsæki reglulega. Ég skrifaði aðallega um stelpuna í næsta herbergi og hefði ég myrt hana seinna um veturinn hefði dagbókin nær örugglega komið upp um mig. Ég var totally obsessed.

Ekki það. Dagbækur hafa svosem áður komið við sögu í lífi mínu. Þegar ég var átján ára komst ég yfir dagbók stelpu sem ég var hrifinn af. Þar las ég að henni þætti ég vera þreytandi til lengdar. Ég beið eftir henni fyrir utan heimili hennar á meðan hún var í skólanum og húðskammaði hana þegar hún kom heim. “Ég hef aldrei verið jafn særður á ævinni,” sagði ég við hana og hún skammaðist sín. Vitanlega. Hún var ekki sækópati.

Ég vaknaði klukkan sjö í morgun og byrjaði strax að stela tónlist af netinu. Ég er búinn að stela fjórum klukkutímum af efni og er hvergi nærri hættur. Svo ég fái ekki sektarkennd beiti ég gömlu trixi. Ég hugsa: Hvað ætli plötufyrirtækin séu búin að ræna miklu af mér?

Ég hef notað þetta trix í fjöldamörg ár. Mig minnir að ég hafi notað það fyrst þegar ég kom aftan að besta vini mínum á malarvellinum í Neskaupstað og henti lófafylli af möl í hnakkann á honum. Að ástæðulausu. Vinur minn fór að skæla (vitaskuld) en áður en ég fylltist sektarkennd hugsaði ég um Strumpabókina sem ég fann í ruslinu heima hjá honum nokkrum dögum áður. Ég hafði gefið honum hana í afmælisgjöf. Minnir að þetta hafi verið bókin um Strumpastríðið.

Ég kveikti á sjónvarpinu fyrir hálftíma síðan. Ungur framsóknarmaður, varaþingmaður í mínu kjördæmi, las ræðu af blaði. Hún fjallaði um tvískinnung VG í umhverfismálum. Eitthvað um að þeir hafi mætt á bílum á landsfundinn sinn eða eitthvað svoleiðis. Hann byrjaði ágætlega en forsetinn, sem í þetta skiptið var Jón Kristjánsson, truflaði hann áður en hann komst alminilega á skrið. Ég man ekki útaf hverju. Hann gleymdi einhverjum prótókól býst ég við. En hann fipaðist verulega við truflunina: “Og hvar er nú umhverfisstefnan?” spurði hinn ungi þingmaður hikandi í lokin og horfði meðvitaður yfir salinn. Hann sagði þetta ekki sigri hrósandi eins og hann ætlaði að gera þegar hann undirbjó ræðuna í gærkvöldi með bestu vinkonu sinni sem hann langar til að byrja með. En hún vill það ekki. Er skotin í blökkumanni í Grindavík. Hann vonar að með þingsetunni, þó hún sé stutt, eigi hann betri séns.

Réttast hefði verið fyrir unga framsóknarmanninn að biðjast afsökunar í þinginu og fara heim til sín. En það gera þingmenn ekki. Ekki einu sinni varaþingmenn.

Hvað um það. Kæra dagbók, alltaf eyðileggur Jón allt.

Sem minnir mig á það! Ég sá Jón í Bónus síðasta sumar. Ég elti hann í nokkrar mínútur og fylgdist með innkaupunum hans. Svona nokkurs konar mannfræðistúdía skulum við segja, kæra dagbók. Nafni minn keypti ósköp venjulegan mat og virtist ekki vera á neinum sérstökum kúr. Við stóðum saman í biðröðinni í tíu mínútur en þegar röðin kom að Jóni afsakaði hann sig og hljóp í burtu. Afgreiðslustúlkan hristi hausinn pirruð og ég reikna með því að Jón geri þetta alltaf þegar hann verslar í Bónus. Sennilega er hann ekki vanur svona miklu úrvali.

Því miður afgreiddi stelpan mig á meðan Jón var í burtu þannig að ég veit ekki hvað það var sem Jón gleymdi. Stundum, þegar mig vantar eitthvað að gera, ímynda ég mér hvað það var sem hann gleymdi þarna um sumarið. Hverju gleymdi Jón, hugsa ég. Var það tekkolía? Plástur? Allavega örugglega eitthvað sem maður kaupir ekki á hverjum degi.

Jæja, kæra dagbók. Ég bið að heilsa þér. Ég skrifa aftur á morgun. Ég lofa.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

FM

“…og þá fékk Forrest Whittaker, Íslandsvinurinn knái, Óskarinn fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin. Til hamingju, Forrest!” hrópaði drengurinn í útvarpinu. Þegar hann sagði “Idi Amin” heyrði ég hann hugsa: “Idi Amin?! Hvað er nú það? Djöfull eru þeir klikkaðir þarna í Hollywood!”

Hann var ekki búinn:

“Heyrum hér næst í strákunum í Son of dork. Þeir eru að gera það gott þessa dagana og eru sumir farnir að kalla þá hina nýju Bítla. Ja, af hverju ekki?” sagði fíflið. Ég gekk að útvarpstækinu og slökkti. Mig langaði til að skjóta einhvern. Bara einhvern.

Dreifarapopp

Ég talaði við mann úr Jökuldalnum um daginn. Hann sagðist sofna við niðinn í ánni á kvöldin. Nokkuð rómantískt. Ég bý líka á Austurlandi en ég sofna við vélarhljóð í skurðgröfum og öskur í Pólverjum. Ég bý fyrir ofan kirkjugarðinn.

Jón Ólafs var með eitthvað landsbyggðarþema á laugardaginn. Einn af viðmælendum hans var vinur minn og fyrrum hljómsveitarfélagi Jón Hilmar Kárason. Vera hans í þættinum meikaði engan sens fyrr en ég sá nafnið hans Dána á spjaldinu í Popppunktsspilinu í gær. Ég verð kominn í Laufskálann fyrir helgi.

Annars er dapurlegt hvað landsbyggðarpopp er leiðinlegt. Ástæðan er einföld: Hér spilar hæfileikaríkasta fólkið á böllum. Úr þessum jarðvegi spretta góðir hljóðfæraleikarar en fáir popptónLISTARmenn - menn eru of uppteknir við að borga upp söngkerfið. Þeir sem neita að taka þátt í þessu flytja suður.

Þetta er samt ekkert lögmál. Í Bandaríkjunum hafa margar góðar grúbbur komið frá landsbyggðinni. Nægir að nefna R.E.M. og Drive by truckers. Þessar hljómsveitir virða ræturnar (kántrí og blúgras) en þær hafa líka drukkið í sig borgarsánd eins og pönk.

Ég vil að þetta gerist á Austurlandi. Menn eiga að hlusta á Inga T. Lárusson en spila eins og strákarnir í Ham. Og þennan bræðing á ekki að flytja á böllum.

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

Popppunktur

Spilaði Popppunktsspilið í kvöld. Um margt ágætis spil en slær ekki út Trivialinn sem ber höfuð og herðar yfir önnur spurningaspil. Ég vann (að sjálfsögðu) en ekki með neinum sérstökum yfirburðum eins og ég átti von á. Tvennt vakti athygli mína:

1. Ég fékk að minnsta kosti tvær spurningar sem snerust um hljómsveitina Bubbleflies. Var þetta eitthvað satanískt djók hjá spurningahöfundi? Af hverju var ekki bara spurt um bílskúrsbandið B2 sem ég og tveir vinir mínir stofnuðum með pleimóköllum í október 1981?

2. Svarið við einni vísbendingaspurningunni var Hálfdán Steinþórsson. Spurt var um tónlistarmann. Magnað.

Þetta má auðvitað ekki skilja sem svo að ég sé að gera lítið úr tónlistarhæfileikum vinar míns. Þeir eru talsvert meiri en mínir og sennilega var hann hæfileikaríkasti meðlimur sveitaballasveitarinnar Sívu frá Norðfirði. Hann samdi allavega lög sem maður gat raulað.

Mér fannst bara magnað að sjá nafnið hans á spjaldinu. Kannski þýðir þetta eitthvað. Kannski er það áfangi í lífinu að verða svar við spurningu? Ég ætti kannski að hringja í hann…

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

Innansveitin

Menningarnefnd Fljótsdalshéraðs auglýsir eftir umsóknum í menningarsjóð sveitarfélagsins. Eitt af skilyrðunum er að umsækjendur séu heimamenn, að þeir hafi lögheimili á staðnum. Spielberg myndi sumsé ekki fá úthlutað í myndina sína um Fellabæ en Bibbi radíóamatör, sem búið hefur á Egilsstöðum allt sitt líf, og fékk ljósmyndadellu sl. haust, fengi hins vegar hálfa milljón í sitt verkefni er fjallar einmitt um Fellabæ líka. 

Fært undir Óflokkað. 2 ummæli »

Fíflafleyið

(Skáldskapur)

Djöfull líður tíminn hratt, hugsaði ég og horfði á skólaklukkuna á veggnum fyrir framan mig. Mér fannst eins og ég fengi verk í bakið í hvert skipti sem vísirinn hreyfðist. Eins og hann væri að ýta mér á undan sér. Ég fékk mér rauðan Ópal. Klukkan var hálf þrjú á föstudegi.

Ég stóð við “afgreiðsluborð” og beið. Með mér stóð ungur maður, á að giska um tvítugt, hann beið líka eftir afgreiðslu. Hann var ör og trommaði með hnúunum á borðið - mér heyrðist hann vera leika paradiddlur en hann hefði auðveldlega getað verið trommari í einhverju altrokk bandi, grindhoraður með lubba, buxurnar víðar og í röndóttri stuttermaskyrtu. Hann minnti mig á ungan Ian Brown.

Hlátur kom innan úr herbergi sem ég lærði síðar að kallað var vaktherbergið. Einhver kona talaði hátt. Hún sagði sögu sem virtist falla í góðan jarðveg hjá starfsfólkinu. Mér heyrðist hún fjalla um einhvern vandræðagang í Ikea. Strákurinn við hlið mér varð óþolimóðari. “Hvað gengur eiginlega á?” sagði hann og barði fastar í borðið. Enginn kom. Hann sneri sér að mér:

“Vinnur þú hérna?”

“Nei.”

“Ertu sjúklingur?”

“Nei.”

“Ertu gestur?”

“Nei.”

“Hvað ertu að gera hérna?”

“Ég ætla að sækja um vinnu.”

Ég veit ekki hvort hann heyrði svarið en af svip hans að dæma finnst mér það ólíklegt. Hann sneri sér aftur að lokuðu dyrunum og barði enn fastar í borðið. Núna lét hann fylgja með “halló!” Hláturinn í vaktherberginu þagnaði og út kom kona. Af röddinni að dæma var þetta sögumaðurinn. Hún var um fimmtugt, með dökkt krullað hár, fremur ófríð.

“Get ég aðstoðað?” Hún hafði sennilega unnið í sjoppu á unglingsárum. Hún horfði til mín og brosti: “Ert þú Jón?”

“Já, afsakaðu…”

“Heyrðu, ég er svo agalega tensaður eitthvað,” greip drengurinn framí. Honum virtist líða talsvert verr en mér. Ég fékk mér rauðan Ópal og ákvað að leyfa honum að klára sín mál. Mér lá ekkert á.

“Já, það er nú bara eðlilegt. Þú sagðir mér að þú værir að ná þér eftir kókaíntúr. Hélstu að það væri svefnlyf?” Undarleg tímasetning fyrir kaldhæðni, hugsaði ég. Hún horfði eitt agnarbrot úr sekúndu til mín og blikkaði öðru auganu. Ég blikkaði líka. Ekki búinn að vera hér í tíu mínútur og strax orðinn þátttakandi í samsæri gegn geðsjúklingi.

“Já, ég veit. En gæti ég fengið largactil, sama skammt og í morgun. Mér leið svo miklu betur.”

“Bíddu, ég þarf að tala við hjúkrunarfræðinginn.” Konan hvarf í nokkur augnablik inní herbergið en kom svo aftur að vörmu spori. “Því miður en þá getur þú ekki fengið meira af lyfjum. Þú ert þegar búinn að fá meira en þú átt að fá. Má bjóða þér eina panódíl?”

“Panódíl?! Mér líður svo illa! Ég er að fokkin drepast! Mér finnst eins og hjartað í mér sé að springa! Finndu fokkin púlsinn!” Hann rétti fram úlnliðinn sem var nýbúið að sauma saman.

“Þú skalt reyna að leggja þig. Svefninn læknar allt.”

“Ég get ekki fokkin sofnað, maður! Ég er svo fokkin stressaður!”

“Á ég að lána þér AA-bókina?”

Drengurinn horfði undrandi á konuna. Hann hefði sennilega hreytt einhverju í hana en vegna reynslu, býst ég við, vissi hann að það borgaði sig ekki. Hann setti frekar upp sinn aumingjalegasta svip og bað um sígarettu.

“Sígarettu? Ég skal nú segja þér það að rannsóknir sýna að sígarettur eru, ólíkt því sem margir halda, ekki róandi. Þær valda streitu! Má ekki frekar bjóða þér te?” Hún þurfti enga staðfestingu frá hjúkrunarfræðingi núna. Hún sagði þetta með vísindalegri vissu. Hún horfði á mig. Ég kinkaði kolli.

Drengurinn gerði lokatilraun: “Gæti ég fengið að tala við hjúkrunarfræðinginn?”

Konan hikaði: “Nei, hún er…hún er, hérna, upptekin. Hún er í símanum…á símafundi. Já, hún er á símafundi.”

“Hvenær er hann búinn?”

“Eftir klukkutíma en þá er vaktin búin.”

Drengurinn gekk í burtu. Hann settist við borð þar sem tveir aðrir ungir menn sátu og ein stelpa, aðeins eldri, sennilega á aldri við mig. Hann lét móðan mása. Hin kinkuðu skilningsrík kolli.

Konan sneri sér að mér: “Þú hlýtur að vera Jón?”

Ég kinkaði kolli.

“Það er beðið eftir þér.” Hún brosti vingjarnlega.

Hjúkrunarfræðingurinn var um fimmtugt en leit út fyrir að vera miklu yngri. Hún var grönn og seinna komst ég að því að hún hafði verið á danska kúrnum í tvö ár. Það var hennar bjargfasta trú að eitt helsta vandamál eiturlyfjasjúklinga og alkóhólista væri mataræðið. “Þeir borða of mikið af ruslmat sem ruglar efnaskipti líkamans og þar með finna þeir fyrir sljóleika. Þetta ýtir undir löngun í örvandi efni,” útskýrði hún fyrir okkur starfsfólkinu og stakk uppí sig gulrót.

“Skilvirkni er forsenda góðrar geðdeildar.” Hún sneri baki í mig þegar hún sagði þetta.

Röddin var mild en ströng og ég vissi ekki hvort hún var að ávíta mig. Ég sat upp við vegg. Hún sat á skrifstofustól sem stilltur var á hæstu stillingu. Þegar hún sneri sér við horfði hún niður til mín og ég upp til hennar.

“Afsakið að ég kem og seint. Ég þurfti að taka strætó. Þetta strætókerfi hérna er nú alveg…”

“Vertu ekkert að afsaka þig. Ég er að skrifa grein í Moggann. Fólk heldur að við séum algerir villimenn og við ætlum að breyta því. Það hluti af framtíðarsýn okkar í geðheilbrigðisgeiranum – að bæta ímyndina. Mig langaði bara til að bera þetta undir þig. Þú ert blaðamaður er það ekki?”

“Ja, ég var það allavega.”

“Eru menn ekki alltaf blaðamenn?”

“Ö, jú, líklegast.”

“Eins og skátar.”

“Ha?”

“Þú veist. Eitt sinn skáti, ávallt skáti.” Hún hló.

“Já, akkúrat.” Ég hló líka. Prýðilegur brandari býst ég við.

Hún sneri sér við og teygði sig í umslag sem lá á skrifborðinu. Ég kannaðist við það. Í því var CV-ið mitt sem ég hafði sent fyrir þremur dögum síðan. Ég fékk svar daginn eftir. Það vantaði mann strax, rétt eins og í síldinni í gamla daga. Hún opnaði umslagið og dró upp tvö A4 blöð, heftuð saman. Þetta var ævisagan mín þar sem m.a. kom fram að ég hafði haft umsjón með þáttum um Beach boys fyrir Rás 2 og skrifað fyrir Veru. Núna var ég á geðdeild. Meikar sens myndu flestir segja.

“Þú hefur litla reynslu sé ég.”

“Ha?”

“Þú hefur aldrei unnið með geðveiku fólki.”

“Nei, varla.”

“Varla?”

“Nei, ég hef ekki unnið með geðveiku fólki.” Þarna hefði ég getað sagt að ég væri aðstandandi, sem ég var í raun og veru, og því ekki fullkomlega vanhæfur. En stundum er betra að geyma trompin.

“En þú ert með meistaragráðu í fjölmiðlafræði sé ég.”

“U, já. Frá Leicester.”

“Sniðugt. Við erum einmitt með einn doktor í fjölmiðlafræði hérna og annan í stjórnmálafræði. Svo erum við með tvær stúlkur með meistaragráðu í heimspeki eða einhverju svoleiðis. Já, og reyndar einn guðfræðing líka en hann er nú eitthvað…já, eða allavega. Við erum með fjölmiðlafræðing hérna.”

“Nú? Starfsmaður þá?”

“Já, við höfum líka haft fjölmiðlafræðimenntaða sjúklinga. Nokkuð marga reyndar - flestir geðklofar ef ég man rétt. En hvað um það. Menntunin þín hentar ágætlega.” Hún hló. Ég hló líka.

“Segðu mér Jón, reykir þú?” Hún brosti og virtist vera við það að bresta aftur í hlátur.

“Ef þú átt við krakk þá hætti ég því um síðustu áramót. Bindindið stendur enn þó ég geti ekki neitað því að oft langar mig í pípu - tala nú ekki um þegar ég heyri brothljóð.”

Þetta sagði ég auðvitað ekki. Ég svaraði spurningunni neitandi.

“Drekkur þú?”

“Bara eins og gengur og gerist.” Ég fékk mér meira af rauðum Ópal og bauð henni.

“Nei, ég borða ekki sykur. Eins og gengur og gerist? Áttu við að þú sért hófdrykkjumaður?”

“Já, ég fæ mér kannski bjór þegar ég er í góðum félagsskap. Þetta er sykurlaust Ópal sko.”

“Aha, þú ert eins og ég. Nei, það festist alltaf í tönnunum.” Hún brosti. “Við höfum haft fíkil í vinnu hérna. Hann var, bíddu við, hvað var hann aftur. Jú, hann var með B.A. í bókmenntafræði.”

“Ókei.”

“Það endaði með hryllingi án þess að ég ætli að fara nánar útí það.” Þetta sagði hún skælbrosandi. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við allri þessari kátínu.

“Ég skil.”

“Þess vegna vildi ég vita hvort þú drykkir.”

“Akkúrat.”

Hún skoðaði CV-ið betur. “Ég sé að þú hefur unnið í netagerð?”

“Já, bara í stuttan tíma. Eftir menntaskóla.”

“Aha, en þetta er reynsla engu að síður. Þú þarft að vera jákvæður ef þú ætlar að vinna hérna.” Hún brosti til mín (móðurlega?) og hélt svo áfram að skoða CV-ið.

Ég þagði. Ég hef aldrei kunnað að taka hrósi (ef þetta var hrós). Þó ég gæti ekki séð í fljótu bragði hvernig reynslan úr netagerðinni kæmi að gagni á geðdeild var vitneskjan um að svo væri nokkuð hughreystandi. Það var þá kannski einhver tilgangur með þessu öllu saman.

“Velkominn um borð!”

“Ha?”

“Velkominn um borð! Ég ætla bara að ráða þig á staðnum! Mér líst svo vel á þig! Við leggjum í hann á morgun!” Hún brosti sem aldrei fyrr og fylgdi mér síðan niðrí anddyri. “Þér á eftir að líða vel hérna,” sagði hún í lyftunni. “Starfsandinn á okkar deild er sá besti í húsinu, það er búið að mæla hann. Og mundu eftir að taka með þér sodúkó. Við erum brjáluð í sodúkó!”

Á leiðinni heim hugsaði ég um líkingamálið sem hún notaði. Sennilega var það tilviljun að hún líkti geðdeildinni við skip en samt er það þekkt staðreynd að geðsjúku fólki var komið fyrir á skipum, einskonar fíflafleyjum (e: ship of fools), á miðöldum og þau látin sigla að næsta þorpi. Hrepparígurinn tekur á sig allskyns myndir, hugsaði ég.

Fært undir Óflokkað. 6 ummæli »

Bloggið

Mín yndislega Esther benti mér á að kommentið mitt neðra hefði verið óvenju geðvont - jafnvel morgunfúlt. Eftir að hafa lesið það yfir mörgum sinnum get ég sossum verið sammála. Það var einhver fýla af því.

Það er búið að kenna mér að þrífa í kommentunum en ég geri það ekki. Hérna verða öll skrif að endurspegla hugarheim bloggarans - með vörtum og öllu. Þannig vil ég hafa það og þannig vill umbinn minn líka hafa það en Nesk (bókin) á að vera “dokjúmenteisjón á lífi bloggarans”. Hann lærði kvikmyndagerð á Ítalíu og talar svona í alvörunni.

Annars finnst mér stundum að þetta konsept hafi hætt að virka daginn sem umbinn vildi gefa út. Svona skrifaði ég fyrir tæpum þremur árum síðan:

Fór í ræktina áðan og skemmti mér konunglega. Strákur um tvítugt mætti nokkrum mínútum á eftir mér og skipti strax um tónlist enda var vælið úr barkanum á Jóni Sig að gera okkur báða vitlausa. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar kunnuglegir hljómar fylltu salinn, nebbla Breaking the law með Judas Priest. Hlusta unglingar virkilega ennþá á Júðaprestinn?!

Greinilega og ræddi ég aðeins við unglinginn um þessa mússík. Fékk meðal annars að vita að söngvarinn, Rob nokkur Halford, er hommi. Ekki kemur það mér á óvart. Alltaf með úber hommalegt kaskeiti úr leðri á höfðinu, sérhannað fyrir leðurhomma. Svo var hann líka alltaf á einhverju Harley hjóli sem er mjöööög gei eins og allir vita. Allavega, skiptir ekki nokkru máli. Það er hommalegt að hlusta á Pet shop boys og ég á fjóra diska með þeim. West end girls er eitt besta popplag allra tíma. Djöfull er ég víðsýnn.

En aftur í gymmið. Skemmtilegast fannst mér samt þegar skrýtni kallinn kom inn í sal til að lækka í “þessu helvítis gargi” eins og mér heyrðist hann segja – hugsanlega ímyndun - en stundum ætlar skrýtni kallinn mann bara lifandi að drepa. Svo fór sá skrýtni aftur út til að gera það sem hann gerir einhvers staðar annars staðar og unglingurinn hækkaði í botn að nýju. Ekki liðu nema svona tvær mínútur þegar sá skrýtni kom aftur og lækkaði svo hann gæti lesið textavarpið sýndist mér.

Unglingurinn hélt sínu striki og hækkaði aftur enda var Túrbólover - eitt besta lagið með Júðunum - komið vel á skrið og homminn byrjaður að væla líkt og hann væri með Y á bólakafi í X. Skrýtni kallinn gafst hreinlega upp og rokkið sigraði að lokum eins og í öllum góðum sögum.

The wild and the young will always be free!
(Kevin DuBrow, 1986)

Óneitanlega mun ómeðvitaðra og einlægara. Pirraður og timpraður blaðamaður í smábæ. Hatar alla og þá sérstaklega sjálfan sig. Finnst allavega allir heimskir. Þetta hefði verið gott stöff í bloggbók.

Núna skrifa ég æ oftar af því að ég þarf að skrifa og stundum er þessi námugröftur þreytandi. Stundum nenni ég þessu ekki. Mig langar bara út að moka snjó. En ég verð að klára þetta. Ég verð að hafa eitthvað til að gefa í jólagjöf.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

Trúin

Opinberlega trúi ég ekki á neitt en ég hef farið til spákonu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég trúi klárlega á eitthvað.

Fyrsta spákonan sem ég fór til bjó í Reykjavík. Ég fann hana í smáauglýsingum DV og fór ásamt vini mínum í heimsókn til hennar. Hún lyktaði af sérrí og var með ónýtar framtennur. Skartgripirnir voru af ódýrustu sort fyrir utan armbandið sem var augsýnilega mun dýrara en hitt skartið. Ég man ekki hvað hún sagði en einhvers staðar á ég það á teipi. Það sem hún sagði var þó ekkert sérstaklega yfirnáttúrulegt minnir mig.

Síðan fór ég aftur til spákonu í Fellabæ fyrir þremur árum. Hún sagði í óspurðum fréttum að Kárahnjúkastífla myndi bresta:

“Fólk mun drukkna!” æpti hún.

“En hvenær geng ég út og hvenær verð ég ríkur?” sagði ég þá.

“Ha?” sagði hún. “Já, þú meinar það.”

En ég hef einu sinni óumdeilanlega fundið fyrir nálægð Guðs. Þá sat ég með Jóni Hafliða uppá fjalli. Við horfðum niður í Fannardal og kannski var ég bara rétt stemmdur en ég hef aldrei upplifað aðra eins fegurð. Náttúran hefur ekkert fyrir þessu.

Fært undir Óflokkað. 2 ummæli »

“Hvað þurfa menn eiginlega að eiga marga diska með Bob Dylan?”

Þannig spurði Esther fyrir helgi. Nýr pakki frá Amazon lá opinn á rúminu. Þrír diskar með Dylan og bók um hann. Ég roðnaði. Ég veit að ég er furðufugl en samt er alltaf jafn erfitt þegar maður er minntur á það. Mér líður eins og ég hafi verið staðinn að verki í playmo.

Ég á marga diska með Dylan - en samt ekki alla - og núna er ég byrjaður safna bókum um hann. Næsta skref er að panta flösuna hans á eBay. Grammið kostar fimmtán þúsund kall.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

Hversdagsleikinn

Hversdagsleikanum var lýst í bókinni Örlagaleysi eftir Imre Kertesz. Söguhetjan er fangi í útrýmingarbúðum nasista þar sem lífið gengur sinn vanagang.

Sumir Norðfirðingar lýsa dögunum eftir snjóflóðið 1974 sem hversdagslegum. Eflaust misstu margir svefn en sumir sváfu ágætlega - kannski aldrei betur. Ekki af því að þeim var sama. Þeir réðu bara ekki við sig.

Allt verður hversdagslegt. Svo maður verði ekki geðveikur. Býst ég við.

Ég man þegar bróðir minn kom heim eitt haustkvöld fyrir tæpum tólf árum. Augnaráðið stjarft og andlitið baðað svita. Hann fann lykt af appelsínum. Daginn eftir var farið með hann til Reykjavíkur. Á meðan var ég heima og horfði á vídeó með vinum mínum fram á nótt. Við töluðum um stelpur og tónlist, tefldum og tókum í nefið.

Fyrir utan gluggann minn

Ég man þegar aðdáun mín á Brian Wilson var sem mest leitaði ég útum allt að týnda meistaraverkinu Smile. Ég skrifaði einhverjum köllum í obskjúr plötubúðum, hringdi í einhverja poppblaðamenn (m.a. í Óla Palla - hann svaraði aldrei) og gerði bara ýmislegt sem ég myndi aldrei gera í dag. Ég á kærustu.

Þegar ég loksins eignaðist eintak kom það frá Moniku, austurrískri vinkonu minni frá Leicesterdögunum, en hún mundi eftir fylleríi þar sem ég röflaði látlaust um þennan heilaga Gral poppsögunnar. Ég skrifaði henni langt þakkarbréf og ítrekaði að hún gæti komið í heimsókn hvenær sem er, ég myndi hýsa hana og fæða eins lengi og hún vildi.

Um síðustu jól skrifaði hún mér ímeil og spurði hvort hún gæti komið í vor. Hef ekki enn svarað. Af hverju í vor?! Akkúrat þegar ég svona bissí!

Pólverjarnir fyrir utan gluggann minn eru búnir að reisa blokk án þess að ég tæki eftir því. Mig langar til að fullyrða eitthvað í þeim dúr að þeir séu alveg “rosalega duglegt fólk” en maður má það víst ekki lengur. Þjóðir eru ímyndaðar, eins og Benedict Anderson sagði, og alhæfingar um eiginleika þeirra eru í besta falli saklaust grín (s.b. brandarar um Hafnfirðinga) en í versta falli sveitamennskulegir fordómar.

Þannig að. Þetta eru duglegir einstaklingar (ekki manneskjur - ég er nefnilega með meistaragráðu í félagsvísindum) þarna úti þó vissulega séu latir menn inn á milli. Ekki að það sé neitt athugavert við leti. Eða þannig.

Síðan ég byrjaði að vinna á sambýlinu, afsakið, í þjónustuíbúðum fyrir þroskahefta, afsakið, ég meinti í þjónustuíbúðum fyrir þroskaskerta. Neineinei! Síðan ég byrjaði að vinna í þjónustuíbúðum fyrir þroskahamlaða einstaklinga (hjúkk - það hafðist) hef ég margsinnis verið spurður að því hvort vinnan mín sé ekki gefandi. Þegar ég nenni ekki að ræða vinnuna mína þá segi ég bara “Jújú, þetta er alveg ógeðslega gefandi.” En þegar ég er kannski drukkinn og í stuði til að rífast þá segi ég eitthvað á þessa leið:

“Gefandi? Hvað áttu við? Af hverju ætti hún að vera gefandi?”

Þá er nú yfirleitt fátt um svör en einu sinni svaraði einn miðaldra karl á þrítugsaldri svona:

“Ja, mér hefur bara alltaf fundist þessir mongólítar svo glaðir. Alltaf dansandi og syngjandi og svona - sem er skrýtið í ljósi stöðu þeirra.”

“Aha, á þann hátt líkjast þeir niggurum,” sagði ég þá. Fremur þurr á manninn.

Fært undir Óflokkað. 2 ummæli »

Stelið henni! 

Fann loksins American beauty með Grateful dead en hún var undir koddanum mínum og hefur verið þar síðan í vor… Ég er að ljúga. Ég stal henni á netinu.

Hmmm…sko, þessi plata er svo góð að ef þú ert blankur þá áttu að stela henni!

Um Megas - býst ég við. Eða bara mig…

Ég hlustaði á síðasta þátt Megasar um Dylan í morgun. Í þættinum rakti hann þau ár á ferli Dylans sem ég þekki hvað minnst eða frá 1986 til 1989. Poppsagnfræðingar eru gjarnir á að segja þennan tíma þann dapurlegasta á ferli Dylans og Megas virtist vera sammála. Hann minnti samt á fyrri plötu Traveling Wilburys og Oh mercy sem allir virðast fíla. Hvað um það. Þáttunum er lokið og mikið vildi ég að Rás 2 framleiddi meira af svona efni. Svona þyrfti nefnilega að afgreiða Springsteen líka.

Eini gallinn við þættina var hvað Megas hélt sér mikið til baka. Yfirleitt finnst mér ekki gaman að hlusta á útvarpsmenn bulla um tónlist sem þeir hafa ekkert vit á en það skiptir máli þegar útvarpsmaðurinn er sjálfur Megas. Það hefði verið gaman að heyra hann fílósófera um plöturnar og segja sitt álit í stað þess að tala alltaf um hvað “mönnum” fannst. Hann ER maðurinn!

Einhvern tímann í vor ræddi ég við Ágúst Ólafs hjá RúvAust um hvort hægt væri að gera einhverja þætti fyrir Rás 2. Ég var þá að drafta handrit að þáttaröð sem átti að heita “Harmsaga ævi minnar - Suðurríkjabandið Lynyrd Skynyrd í blíðu og stríðu”.

Saga Skynyrd er ein af þessum sögum þar sem maður hugsar við hver kaflaskil að hlutirnir geti ekki orðið verri en svo kemur í ljós að trommarinn er barnaníðingur. Þannig er uppbygging sögunnar ólík hefðbundinni sagnauppbyggingu. Það er vissulega upphaf (menn fæðast og hljómsveit er stofnuð) og svo eru vandamál kynnt til sögunnar (þeir byrja að drekka og dópa, lenda í flugslysi og svo framvegis) en það kemur aldrei nein lausn - bara fleiri vandamál. Enginn fer í meðferð. Enginn frelsast. Menn deyja bara. Nú eða fara í grjótið.

Þegar ég var búinn að bera upp hugmyndina sagði Ágúst (og ég skil ekki enn hvað hann meinti): “Já, mér hefur alltaf fundist Bachman Turner Overdrive skemmtileg.”

Stundum, þegar ég er á leiðinni í vinnu, sé ég drengina hjá Rúv á svölum útvarpshússins á Egilsstöðum. Þeir reykja mikið. Ætli þeir reyki nokkuð krakk?

Einu sinni, þegar ég var ungur og efnilegur blaðamaður hjá DV, spurði Páll Ásgeir mig hvort mig langaði ekki að taka viðtal við Megas. Ég stökk á tækifærið enda kemst Megas næst því á Íslandi að vera “Rock and roll recluse”.* Kollegi minn í L.A. hefði tekið viðtal við Brian Wilson.

Þetta er eina viðtalið á mínum stutta blaðamannaferli sem mér þykir vænt um. Lengi vel átti ég það í möppu en núna finn ég hana ekki. Sennilega týndi ég henni í síðustu flutningum.

Megas var í góðum gír þegar ég hitti hann og klukkutímaviðtal við hann varð þriggja klukkustunda langt. Við spjölluðum, reyktum og hann spilaði mússík fyrir mig. Hann svaraði öllum spurningum - meira segja um dópið og sukkið og ólíkt öðru frægu fólki á Íslandi var hann laus við allt egó. Hann var bara í viðtali og gerði það eins vel og hann gat. Hann sagði aldrei: “Þetta máttu ekki hafa eftir mér” eða “…og svo vil ég lesa viðtalið yfir.” Megas er gáfaður og veit hvað hann má segja. Ég bauð honum hinsvegar að lesa viðtalið yfir vegna þess að ég skrifaði það eftir minni. Ég var svo taugaveiklaður í upphafi viðtalsins að ég gleymdi að kveikja á diktafóninum.

Gunnar Andrésson kom svo og tók eina fallega mynd af honum og eina ljóta. Páll Ásgeir vildi ljótu myndina af honum í blaðið en ég og Gunnar vildum fallegu myndina. Ég man hvað ég sagði við Pál:

“Sko, það eiga allir von á ljótri mynd af Megasi. Af hverju ekki að sýna hann einu sinni fallegan?”

Páll Ásgeir, þessi ljúflingur, sagði mér að blaðið hefði ákveðinn stíl - sem var svona stíleseraður stíll - og “ljóta” myndin hentaði þess vegna betur. Hann ætlaði samt að bera þetta undir Sigmund Erni sem þá var ritstjóri. Ritstjórinn horfði á myndirnar til skiptis í fáein augnablik og sagði svo skáldlega (enda er hann skáld):

“Oj, hvað hann er ljótur á þessari! Við notum hana!”

Ég hugsa að þarna hafi Páll fengið örlitlar efasemdir um eigin dómgreind því hann bar myndirnar líka undir Silju Aðalsteins (þú getur bara leiðrétt þetta með athugasemd, Páll). Hún valdi ljótu myndina og orð Silju eru lög eins og við vitum.

Mér var hrósað talsvert fyrir viðtalið en þegar ég hitti Megas nokkrum dögum síðar sagði hann við mig að þetta hefði verið “ágætis viðtal eftir mann sem hefur takmarkað vit á þessu.” Ég móðgaðist ekki en mig langaði samt til að spyrja hann hvað þetta ÞETTA væri.

*Þetta er ekki rétt hjá mér. Sigurður Bjóla er hið eina sanna “Rock and roll recluse” á Íslandi.

Fært undir Óflokkað. 2 ummæli »

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Krossinn

Keli bróðir hefur alltaf hrifist af þessum stóru persónum í sögunni. Hann fílaði Neró, Alexander mikla og svo auðvitað Jesús Krist. Þess vegna keypti pabbi tíu myndskreyttar biblíusögur af svertingjanum sem kvaddi pabba með þeim orðum að hann ætti “góðan son” sem yrði “örugglega prestur.”

Yfir þessum bókum lágum við bræður í marga mánuði en það er staðreynd að lesi maður sömu bókina oft verður hún hluti af manni. Það er varla hægt að tala um vemjuleg áhrif lengur. Hin marglesna bók verður framlenging á sjálfum manni, uppspretta hugmynda, lífssýnar og blablabla. Þetta má enn sjá á og í Kela. Á náttborðinu hans liggur bók um fall Rómarveldis. Og reyndar líka bók um fall þungarokksins.  

Yfir biblíusögunum lágum við semsagt og breyttum mannkynssögunni mörgum sinnum á dag. Í mínum sögum tókst Jesú yfirleitt að sleppa af krossinum en Keli samsamaði sig einhverra hluta vegna með Rómverjum og Jesús slapp aldrei. Ef hann svo mikið sem reyndi að sleppa fékk hann spjót í síðuna. Ég kann enga skýringu á þessu. Keli var bara eitt af þessum óvenjulegu börnum sem vildi vera Þjóðverji í stríðsleikjunum í gamla daga.

Oftast skoðuðum við bókina þar sem Jesús var krossfestur. Myndin sem við höfðum sérstakt dálæti á sýndi frelsarann á krossinum ásamt ræningjunum tveimur. Þegar ég hugsa til baka þá minnist ég þess ekki að þeir hafi verið neitt sérlega daprir, svona miðað við aðstæður allavega. Á myndinni sést Jesús horfa á annan ræningjann með samúð (eins og staða hans hafi verið eitthvað betri!) og ræninginn brosir hálf aulalega. Hann passar sig vandlega að horfa ekki framan í Jesú - líkt og hann hafi nýlokið við að segja misheppnaðan brandara eða eitthvað svoleiðis. 

En við vildum eignast kross. Alveg eins og á myndinni.

Það var lítið mál að búa hann til því pabbi og mamma voru að byggja sér hús á þessum árum og nóg til af timpri. Keli sá um að ræða hönnunina við pabba:

“Ertu til í að negla þær saman með fjórum nöglum,” sagði hann afskaplega blátt áfram en pabbi hafði bara notað tvo.

“Er það nú ekki óþarfi,” sagði pabbi. “Þið eruð varla að fara krossfesta neinn, ha?” Hann hló að þessari vitleysu.

“Neinei,” sagði Keli en endurtók, ýtinn: “En viltu samt negla þær saman með fjórum nöglum?”

Pabbi yppti öxlum og negldi fjalirnar saman með tveimur nöglum til viðbótar. “Vessgú,” sagði hann svo og færði Kela krossinn. Hann var traustur. Hefði getað borið hvaða glæpamann sem var en glæpamaðurinn hét Harpa og vó sennilega um þrjátíu kíló. Hún bjó hinum megin við gilið.

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

67 

“Þannig fluttu 67 fleiri frá Fjarðabyggð til annarra landssvæða en þangað komu…” sagði í fréttum RÚV um daginn en kæri menn sig um að fríka út á tölum þá var bandaríski blaðamaðurinn Hunter S. Thompson einmitt 67 ára þegar hann stytti sér aldur.

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

“Gagnrýnendur fíla Elvis Costello vegna þess að þeir líta út eins og Elvis Costello”

Þetta var haft eftir David Lee Roth, að mig minnir, og eins og venjulega slær David naglann á höfuðið.

Núna halda gagnrýnendur vart vatni yfir hljómsveitinni The Hold steady frá Minneapolis en söngvari hljómsveitarinnar Craig Finn lítur einmitt nákvæmlega út eins og Costello. Mér finnst þetta algert dúndur raunsæis “spot the reference”-rokk* en ég er líka með þykk og nördaleg gleraugu eins og Costello. Tékkið á þeim.

Í viðtali við Uncut segjast þeir vera gáfnaljós sem kunna að skemmta sér. Þeir segjast syngja um eitthvað annað en stríð, þeir vilja að við gleymum hörmungunum í Írak. Við eigum að skála og dansa!

Þeir hafa sumsé sama etho-ið og diskóið. Sem er slæmt. Adorno hefði hatað þá. En þeir rokka.

* “Spot the reference”-rokk. Þið vitið náttla ekki hvað það er?

Sko. “Spot the reference” rokk er rokktónlist þar sem tónlistarmennirnir vitna meðvitað í aðra tónlistarmenn. Tvær manneskjur, afsakið, tveir strákar, í salnum átta sig á þessu og þegar þeir heyra eitthvað sem þeir þekkja (e: spot) kinka þeir kolli til hljómsveitarinnar og gera “high five” ef söngvari hljómsveitarinnar kinkar til baka.

Að hafa slíka þekkingu á rokktónlist er stór þáttur í sjálfsmynd þeirra og hin yfirgripsmikla þekking, eins og öll önnur þekking, aðgreinir þá frá fíflunum sem vita ekki einu sinni hverjir hönnuðu plötuumslögin fyrir Led Zeppelin. Hafi þeir örlítinn snefil af hæfileikum, sem þeir hafa sjaldnast, þá stofna þeir seinna á ævinni, jafnvel ekki fyrr en um fertugt, hljómsveit eins og The Hold steady.

Nú. Ég veit þetta af því að ég er svona. Um leið og ég heyrði The Hold steady spottaði ég Springsteen og E-Street reference-inn. Ég brosti. En ég brosti með sjálfum mér af því að klukkan er tíu að morgni og ég er einn heima. Í bláum baðsloppi.

“Raunveruleikinn er raunverulegri á ljósmynd”

Eitthvað í þessum dúr segir bandaríski bókmenntafræðingurinn Susan Sontag um ljósmyndina. Ljósmyndin, segir hún, gerir alla reynslu vanmáttuga. Hún dregur máttinn úr hinu raunverulega. Þess vegna hefur Hilmar vinur minn í Reykjavík aldrei komið útá land. Hann “bíður eftir myndinni”. Eðlilega. Þetta vita allir innipúkar.

Ég og Esther horfðum á O, brother where art thou eftir Coenbræður í fyrrakvöld. Ég sá þessa mynd fyrst útí í London í ágúst árið 2000 og sá hana svo aftur í bíó að minnsta kosti fimm sinnum í Leicester. Þetta er BÍÓMYND í orðsins fyllstu merkingu og virkaði engan veginn á tölvuskjá. Eiginlega gerðu þessi skilyrði galla myndarinnar of augljósa, eins og hún hafi verið gerð til að koma tónlistinni á framfæri - sumsé, eiginlega bara tveggja stunda langt tónlistarmyndband eða, sem er verra, tveggja stunda löng söng- og dansmynd.

En horfi maður á þessa mynd í bíói gleymir maður sér í þessu flatneskjulega en stórfenglega landslagi Mississippi - sem er stórfenglegt af því að það er svo stórt en ekki endilega stórbrotið.

Hálft í hvoru var ég að leita að þessu í Ameríkutúrnum í hittiðfyrra þ.e. Bandaríkjunum sem ég hafði séð í The Last picture show, What’s eating Gilbert Grape og svo auðvitað í O brother. Ég hefði getað farið til Hollywood en ég vildi sjá eitthvað “ekta”.

Vonbrigði. Það er eftirminnilegasta tilfinningin úr túrnum. Ég fékk ekki það sem ég borgaði fyrir. Vörusvik. Það voru umferðarljós á krossgötunum.

Fært undir Óflokkað. 2 ummæli »

Dixídömur

Stúlkurnar í Dixie chicks fengu fimm Grammy verðlaun á hátíðinni í fyrradag. Ég hef lengi ætlað að kynna mér hljómsveitina þá sérstaklega síðustu plötu hennar sem sjálfur Rick Rubin pródúserar.

Athygli mín beindist fyrst að bandinu þegar þær andæfðu Íraksstríðinu opinberlega í mars 2003 (daginn sem innrásin hófst) en það ber vott um hugrekki þegar Suðurríkjabönd taka slíka afstöðu. Vargarnir hættu að vísu að mæta á tónleika með þeim í kjölfarið (kölluðu þær “Saddam’s chicks”) en þær komust á forsíðu Time. Nú á dögum skiptir það ef til vill meira máli.

Er að hlusta á plötuna þeirra, sem ég nálgaðist með óhefðbundnum leiðum, og hún hljómar býsna vel við fyrstu hlustun. Hljómurinn minnir á plötuna Wildflowers sem Tom Petty og Rick Rubin gerðu saman fyrir tíu árum og lögin eru í anda Dolly og Emmylou. Meginstraums kántrímússík verður ekkert mikið betri en þetta.

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »