Sinead

Þar sem allir eru fríka út þessa dagana í pólitískum tittlingaskít langar mig til að deila þessu með ykkur.

Restless farewell

Ég stend á tímamótum. Ég er kominn í nýja vinnu og búinn að kaupa mér grill.

Ég ætla að nota tækifærið og hrinda í framkvæmd svolitlu sem má eiginlega ekki bíða mikið lengur: Ég tilkynni hér með að ég er hættur að blogga.

Áhugi minn á bloggi (á skrifum og lestri þess) minnkar á sama hraða og dagurinn lengist og dagurinn lengist ansi hratt þessa dagana. Blogg er nefnilega vetrarsport og fátt er hallærislegra en brun í gervisnjó. Ég er ekki hallærislegur. Þannig að …

Ég hef hugsað mér að byrja aftur síðsumars en þá sem netvarpari (hvernig þýðir maður annars podcasting?) á Rauðhausum punktur com sem Esther er hægt og rólega að kalla fram með stafrænum töfrabrögðum. Hún er galdranorn. Hún er rauðhærð. Hún er væntanleg heim eftir níu tíma.

Ég þakka lesturinn. Við hittumst í raunheimum.

Fært undir Óflokkað. 9 ummæli »

Laugar

Í borginni fór ég í Laugar. Þetta baðhús minnir mig á Graceland í Memphis, álíka smekklaust og álíka úrkynjað, en ég var timbraður og naut þess að rölta um “hellinn” hálf nakinn með félögum mínum. Sumar konurnar voru berbrjósta og sumir karlarnir án fata yfirleitt. Karlarnir töluðu mikið um að fá sér “einn kaldan í kvöld” og rækjust þeir á konur sem þeir þekktu voru þær umsvifalaust spurðar að því hvort þær væru ekki “ferskar”. Þær tístuðu og játuðu. Þær voru ferskar.

Púrítaninn í mér hugsaði að endalokin hlytu að vera handan við hornið.

“Bjössi í World Class” er hann kallaður maðurinn sem setti upp myndavélar í búningsklefanum í Laugum í hittiðfyrra. Hann þurfti að finna þjóf. Þetta varð síðan mikið fréttamál, eins og þið munið sjálfsagt, og eins og svo oft í svona skandölum þá skildi viðfangsefnið hreinlega ekki hvaða læti þetta voru í fjölmiðlum. Stormur í vatnsglasi, sagði Bjössi örugglega.

Og hann var einlægur í skilningsleysi sínu. Honum fannst nákvæmlega ekkert athugavert við að setja upp myndavélar í búningsklefanum. Nákvæmlega ekkert!

Eftir að hafa heimsótt Laugar get ég ekki annað en sýnt skilningsleysi Bjössa smá skilning. Hann veit nefnilega að fáir nota spegla jafn mikið og einmitt viðskiptavinir Lauga og hann veit þar með líka að flestir viðskiptavinirnir yrðu nú líklega bara soldið ánægðir ef þeir vissu að þeir væru í mynd. Gott ef þeir spenntu ekki bara vöðvana …

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Hugleiðing um Þorpið

Ég fór til Reykjavíkur um helgina. Sunnudeginum eyddi ég á kaffihúsi og las Post office eftir Bukowski í þriðja sinn. Á kápunni segir að bókin sé sú fyndnasta sem nokkurn tímann hefur verið skrifuð. Ég er sammála.

Á einum stað í bókinni flytur söguhetjan, Henry Chinaski, frá stórborginni Los Angeles til þorps í Texas. Í þorpinu líður honum vel. Hann “á” það og meinar að í því er hann nafn- og fortíðarlaus: Hann er frjáls maður. Í Los Angeles er þessu þveröfugt farið. Hann er fastur í stöðu póstburðarmanns, hann er þreyttur á sömu börunum, sömu vinunum og sömu konunum. Þetta þorp á hann.

Bukowski skrifar um stórborgina Los Angeles á svipaðan hátt og ótal margir rithöfundar hafa skrifað um smáþorp. Það ber aldrei neitt nýtt fyrir augu þorparans í þorpinu. Fyrir suma þorpara táknar það öryggi en fyrir aðra, eins og Chinaski, táknar það stöðnun andans. Örvæntingin er óumflýjanleg og niðurstaðan er taugaáfall.

En Chinaski leitar aftur til Los Angeles. Hann leitar aftur heim í þorpið sitt, í öryggið. Hann er skuldbundinn. Býst ég við.