Umbinn hringdi

Umbinn hringdi. Sagði að ég væri ekki nógu sympatískur á myndinni neðra:

Ég: Hvað meinarðu?

Umbi: Bara, þú virkar full sjálfsöruggur. Hrokafullur jafnvel. Í það minnsta ekki viðkunnanlegur.

Ég: Hvað meinarðu?! Mér fannst ég vera eins og Stefán Jón Hafstein!

(Þögn)

Umbi: Einmitt.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

Egó

Elma bendir mér á í athugasemdunum neðra að ég sé að verða sífellt sjálfhverfari. Á þriðjudag skrifaði ég um trúskiptin sem (og það er rétt) koma engum við nema sjálfum mér. Í gær sýndi ég fólki síðan persónuleg bréf og færsluna myndskreytti ég með myndum af sjálfum mér. Í dag skrifa ég um bloggið mitt - einskonar naflaskoðun naflaskoðunarinnar.

Ég tek heilshugar undir orð Elmu. Ég tel að þessi þróun hafi hafist fyrir löngu - víst algengt hjá yngstu systkinunum - en svo tekið stóran kipp þegar ég byrjaði að blogga fyrir tæpum fjórum árum. Þá, má segja, var sjálfhverfunni hleypt lausri.

(Ég undrast hinsvegar tímasetninguna á athugasemdinni því hún kom í kjölfarið á færslu þar sem m.a. var sagt frá Strengja Emil og Reiðhjólarefnum.)

Þetta á ekki bara við mig því langflestir bloggarar ofmeta mikilvægi sitt. Í fljótu bragði man ég bara eftir einum bloggara sem vanmetur það þ.e.a.s. fjölmiðlafræðingurinn Guðbjörg Kolbeins.

Annars álít ég mig líka vera narsissískan (”mikið er ég fallegur svona skeggjaður!”), sjálfselskan (”hugsar þú aldrei um neitt nema sjálfan þig!”) og sjálfmiðaðan (”sko, mér finnst…o.s.frv”).

Næstu daga ætla ég að skrifa um mína helstu galla. Ég ætla að byrja á frekjunni og vinna mig svo koll af kolli að flösunni sem ég fæ yfir háveturinn.

Var spurður að því á fundi í morgun hvað mér þætti um hinn brúnhærða Eirík Hauksson. Félögum mínum fannst sjálfgefið að rauðhausinn ég hefði einhverja skoðun á þessu en þvílík firra! Júróvisjón er viðbjóður og mín vegna mætti Eiríkur vera sköllóttur.

Drengirnir segja að nýja lagið með Rush líkist tónlistinni af Counterparts frá 1993 á meðan ég líkti laginu við Permanent waves. Strákarnir í Rush segja hins vegar að platan sé afturhvarf til Hemispheres frá 1978. Ég vona að það sé misskilningur hjá þeim. Hemispheres er langsamlega þeirra leiðinlegasta plata. Fjögur lög á henni skal ég segja ykkur þar af eitt sem tekur aðra hlið plötunnar frá byrjun til enda. Hörmung.

Fært undir Óflokkað. 5 ummæli »

Far cry

Hér má heyra nýja singulinn af nýjustu plötu Rush sem væntanleg er 1. maí næstkomandi.

Búinn að hlusta nokkrum sinnum á lagið. Þetta minnir óneitanlega á gamla daga, lagið gæti verið á prog-lite meistarastykkinu Permanent waves. Allt sem minnir á gamla daga í þessu samhengi er gott.

Fært undir Óflokkað. 6 ummæli »

The Tuesday letters/fátt er betra en gott frík

þennan hjá Þóreyju P. Þessi Emil er búinn að gleðja mig meira á fimm mínútum en margt fólk gerir á allri sinni ævi. Hugi segir að þetta sé költ fígúra á netinu og benti mér líka á þennan.

Talandi um frík. Ég sendi Umbanum bréf í gær klukkan 16:47. Það var svona:

Þú færð kaldar kveðjur á blogginu mínu en auðvitað meina ég ekkert með því. Finnst bara svo erfitt að segja fólki að mér þyki vænt um það. Sendi þér mynd sem mín ástkæra tók af mér rétt í þessu. Þú vildir mynd fyrir bókarkápuna ekki satt? Ég veit að við vorum búnir að tala um einhverja beituskúrsmynd en það er kannski full mikið að kalla bókina Nesk og hafa svo mynd úr beituskúr. Eigum við ekki að gera ráð fyrir að lesandinn hafi smá ímyndunarafl? Svo finnst mér líka blokkin táknræn fyrir Endurreisnina.

(Endurreisnina höfum við með stóru E-i. Útskýri það seinna.)

Með bestu kveðju,

Jón.

Myndin er svart/hvít og á henni stend í gráum retro ullarjakka (minnir á fatnað Bítlanna utan á Rubber soul), ég er með skegg (enda lífskúnstner) og með gleraugu (enda sé ég illa). Fyrir aftan mig er nýjasta blokkin á Héraði. Myndin sýnir góðan en hugsandi mann, einskonar Norðurhafs-Gandhí. Neinei, það er kannski full ýkt. Nokkurs konar Norðurhafs-Lennon - eða Harrison.

Svar barst frá Umbanum klukkan 22:27:

- Já, já, svona þeim var ég verstur bla, bla.

Maðurinn á myndinni er týpískt sjöhundruðogsúrkál wannabe hundraðogeinn Reykjavíkur kaffihúsaskáld með skegg og hommaleg gleraugu.

Ég svaraði rúmum hálftíma síðar (klukkan 23:01):

En hvernig líst þér á þessa, betri? Myndin sýnir mig eins og guðlega veru á hjara veraldar, nokkurs konar túlípana á sorphaugum alheimsins.

Umbinn svaraði um hæl eða nákvæmlega klukkan 23:03:

Já þessi mynd á flickr … - fín augl. fyrir gay porn á Austurlandi; vantar bara varalitinn á þig Johnny og þú ert foli vikunnar. En þetta bloggdæmi er soldið þreytt. Hér kemur nýja bókin …

Ég fíla þennan appelsínugula lit.

Spurningakeppni

Hver er þessi úber kúl dúd

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

Líkbrennslur og vonsviknir vinir

Nei, Stefán Arason. Ég veit ekki hvar menn geta brennt lík en mikið er gaman að þú skulir spyrja.

Tveir vinir mínir hafa gert athugasemdir við siðaskiptin okkar Estherar. Athugasemdirnar eru ekki af trúarlegum ástæðum. Þær eru annarlegar: “Voðalegt kærustupar eru þið. Förum saman í Ástatrúarfélagið!” segja þeir í hæðnislegum tóni og gera lítið úr alvöru málsins.

Þessir vinir minir eru bitrir og biturðin sprettur úr jarðvegi endalausra vonbrigða á öllum sviðum lífsins. Á hverju kvöldi sofna þeir vonsviknir því þeir telja að lífið sé þeim ekki sanngjarnt. Ég fer ekki nánar útí þetta hér enda kann ég mig.

Þessir vinir mínir heita Emil Þór Vigfússon og Kristinn Pétursson.

Bloggin verða örstutt næstu vikurnar vegna anna.

Fært undir Óflokkað. 2 ummæli »

Kanamellur og leikmannaskipti

Kanamella sem er í framan

Eins og World Trade Center

Daginn áður en allt féll saman

(eða eitthvað í þessum dúr)

…söng Erpur Eyvindarson, Rottweilerhundur, hjá Jóni Ólafs um helgina í þætti sem tileinkaður var mótmælatónlist eða andófsmússík. Enskir tala um “protest songs” sem er líka ágætt. Þegar Erpur hafði lokið sér af, sveittur og móður eftir allt in yer face-rappið, þar sem stuðningsmenn Bandaríkjamanna eru kanamellur, settist hann niður hjá Steinunni Jóhannesdóttur rithöfundi og kvenréttindafrömuði og saman töluðu þau um mikilvægi þess að fólk hefði “eitthvað að segja” í textunum sínum.

Jamm. Með réttsýna vini eins og Steinunni og Erp þurfa kanamellur heimsins, og bara mellur yfir höfuð býst ég við, enga óvini.

Fjölmiðlafræðingur við Háskóla Íslands sá klám útúr forsíðumynd Smáralindarbæklings. Bloggarar landsins fríkuðu út og margbentu á að fjölmiðlafræðingurinn væri ekki bara kona heldur líka með doktorsgráðu. Þvílík blanda! Guð hjálpi okkur!

BVG segir:

“…konan sem kallaði þetta klám gekk svolítið langt en mér þykir þessi mynd samt ekki vera við hæfi. Hún væri það ef fyrisætan væri fullorðin því þótt ekki sé beinlínis um klám að ræða, eru í henni erótískar skírskotanir og mikið er ég viss um að barnaperrar þessa lands slefa yfir henni.”

Ég er sammála BVG. Við hljótum að vera dónar báðir tveir.

Í dag skráum við Esther okkur úr þjóðkirkjunni. Við ætlum að ganga í Ásatrúarliðið.

Esther er meira ekta í þessu en ég og hefur lesið Snorra-Eddu og þessar bækur - þekkir heimspekina. Ég held hinsvegar áfram að vera kristilegur tækifærissinni. Lendi ég lífsháska mun ég sumsé halda áfram að biðja hinn eina sanna Guð, og son hans, um hjálp. Þess á milli, þegar allt er í lukkunnar velstandi, skála ég fyrir gömlu guðunum. Ekki veit ég hvert svoleiðis trúariðkun leiðir mann. Ætli ég fari ekki bara til helvítis?

Ég sagði foreldrum mínum og Kela bróður frá siðaskiptunum í gær. Mamma fór í hláturskast, pabbi sagði að ég væri hugleysingi þar sem ég gengi ekki alla leið og Keli sagði: “Mér líst vel á þetta og þið megið fórna mér hvenær sem þið viljið.” Það sem þessi drengur vill ekki fyrir mann gera, ha? Honum verður fórnað á næsta sigurblóti (sumardaginn fyrsta). Stay tuned!

Er að hlusta á nýju plötuna með Kings of Leon. Hún er fær 8,5 ef við gefum okkur að 0 sé sólóplatans hans Bigga í Maus og 10 sé Blonde on blonde með Dylan.

Viðbót klukkan tíu mín í tíu.

Esther gekk úr þjóðkirkjunni fyrir löngu. Sorrí, beib.

Dramatísku eftirmálin

- Páll Ásgeir spyr, eins og ég átti von á, um hin dramatísku eftirmál Viðfjarðarsögunnar. Mér er í það minnsta skylt að útskýra við hvað ég á.

Tveimur árum áður en ég fór til Viðfjarðar starfaði ég sem blaðamaður á héraðsfréttablaðinu Austurlandi í Neskaupstað. Vinnan fólst að miklu leyti í því að hringja í útgerðastjóra Síldarvinnslunnar og fá aflatölur og þá eyddi ég miklum tíma í að taka myndir af skemmtunum eldri borgara. Mér fannst vinnan leiðinleg og eftir tvo mánuði langaði mig til að hætta.

Ég bjó hjá foreldrum mínum á þessum tíma við Víðimýri og sú var venjan að öll fjölskyldan hittist í hádeginu og borðaði saman. Gamall og góður landsbyggðarsiður. Tímann notaði fjölskyldan til að ræða málefni dagsins, efni fréttatímans o.þ.h. Þið kannist við þetta. En dag einn sagði pabbi minn fréttir:

Þannig var mál með vexti að fyrir ofan götuna stóðu miklar framkvæmdir við gerð snjóflóðavarnargarðs. Framkvæmdirnar voru umdeildar en fyrst og fremst snerist deilan um umhverfismál. Fólki fannst varnargarðurinn of stór og svo, eins og alltaf gerist þegar stórframkvæmdir eru í bígerð, voru heimatilbúnu sérfræðingarnir á einu máli um að varnargarðurinn væri í fyrsta lagi óþarfur (”það koma aldrei snjóflóð þarna!”) og í öðru lagi var hann á vitlausum stað (”snjóflóðin koma hér en ekki þarna!”) og í þriðja lagi var garðurinn umhverfisslys (”af hverju þarf hann að líta svona út?”).

Deilan hafði einungis að litlu leyti ratað út fyrir eldhúskrókana en svo ákváðu íbúar við Víðimýri að mótmæla formlega. Eins og venjulega þegar þorparar mótmæla einhverju eru mótmælin veikburða og enginn þorir að tala fyrir hönd andófsmannanna. En pabbi sagði mér að tala við Kaí. “Hann vill alltaf tjá sig,” sagði hann og glotti.

Kaí er einn af þeim sem setur svip á bæinn eins og sagt er og ég held að mér sé óhætt að segja að allir Norðfirðingar, af öllum kynjum og á öllum aldri, viti hver hann er. Það eru ástæður fyrir frægð hans (flestar góðar) en ein þeirra er sú að hann er skapmaður eða eins og menn segja: Hann talar “mannamál” þegar einhver eða eitthvað fer í taugarnar á honum.

Bæjarbúar eru samt sammála um að Kaí sé hinn vænsti kall og þótt hann sé með skap þá hefur hann lært að hemja það þannig það reynist honum sjaldan fjötur um fót. Hann er listrænn í eðli sínu og ljósmyndir hans af hinum ýmsu náttúrufyrirbærum skapa rólega stemmningu þar sem þær eru sýndar. Það er reyndar ekkert nýtt að skapmenn séu dagfarsprúðir. Já, og svo safnar hann steinum og safnið hans ratar reglulega í héraðsfréttablaðið. Að minnsta kosti í hvert skipti sem nýr blaðamaður hefur störf. Þá vekur útlit hans gjarnan athygli en hann er soldið “frumbyggjalegur” svo ekki sé meira sagt án þess að mig langi að fara nánar útí það.

Hvað um það. Kunningi minn í Neskaupstað, sem er barnslega heiðarlegur af ástæðu sem er óþarfi að nefna hér, vinnur með honum og hann segir mér að Kaí sé ekki illa við nokkurn mann en bætir síðan við: “Honum er bara illa við þig.” Og já, hann bjó í næsta húsi.

Pabbi sagði mér sem sagt að Kaí væri reiðubúinn að tjá sig um umhverfisslysið. Til að gera langa sögu stutta hringdi ég í Kaí og hann var heldur betur til í að tjá sig:

Framkvæmdin var auðvitað stórslys og bara tímaspursmál hvenær garðurinn myndi leka niður fjallið og eyðileggja allt sem fyrir honum yrði þ.m.t. húsin við Víðimýri. “Líka þitt,” sagði Kaí við mig, örvæntingarfullur. En það sem meira var þá var maðurinn sem bar ábyrgð á framkvæmdinni - hét Guðmundur - “það heimskasta sem staðið hefur á tveimur löppum” og að tala við hann var, sagði Kaí, “eins og að tala við stein uppí fjalli”. Svo bætti hann við í lokin þannig að ekkert færi á milli mála: “Og ég meina það!”

Í fyrsta sinn á blaðamannaferlinum fékk ég þennan fiðring sem blaðamenn fá þegar þeir vita að þeir eru með gott efni í höndunum. Þið kannist við þetta: Þetta er sama tilfinning og maður fær þegar einhver segir manni góða kjaftasögu og maður barasta verður að finna einhvern til að segja frá. Þetta er nákvæmlega sama tilfinning.

Fyrirsögnin var með því stærsta letri sem nokkurn tímann hefur sést í fyrirsögn í héraðsfréttablaði á Íslandi (enda var ritstjórinn fyrrverandi ritstjóri Pressunnar) og hún hljómaði svona:

“Stærsta umhverfisslys í sögu Norðfjarðar”

Með fréttinni birtist mynd af Kaí uppí fjalli sem hafði verið tekin fyrir fjallagrasatínslufrétt nokkrum árum áður. Þetta var alger bomba!

Ég var greinilega ekki búinn að átta mig á eðli fjölmiðlunar á þessum tíma. Ég vissi ekki enn að sendiboðanum er alltaf kennt um allt og gekk því útum allan bæ með próförkina og sýndi öllum sem vildu sjá. Þegar fólk sá fréttina varð það skrýtið í framan og spurði: “Ætlið þið virkilega að birta þetta?”

(Einn hélt reyndar að Kaí væri umhverfisslysið sem fréttin fjallaði um…)

Ég svaf ekkert nóttina fyrir útgáfudag. Ég var orðinn efins.

Fyrsta símtalið barst um hádegi daginn eftir, sirka hálftíma eftir að blaðið fór í dreifingu. Ég heyrði ekkert nema andardrátt í símanum. Fyrst hélt ég að símaperrri væri að hringja í skakkt númer en svo tókst mér á einhvern hátt greina manninn á bakvið andardráttinn. Þetta var Smári Geirsson en hann sat í einhverju sem kallaðist “ritnefnd Austurlands”. Þarf að segja meira?

Nú hófst mikið hafarí meðal þorpara þar sem ég og Kaí vorum í aðalhlutverki. Hvernig blaðið fjallaði um málið varð auðvitað aðalatriðið (eðlilega býst ég við enda var talað um harmonikkumót eldri borgara á forsíðu blaðsins viku fyrr) og menn veltu fyrir sér eftirfarandi spurningum:

Hvað sagði Kaí og hvað meinti hann? Og af hverju var það sem hann sagði birt?

Hvað sagði Kaí og hvers son var þessi Guðmundur sem hann talaði um? Og af hverju voru menn nafngreindir?

Við fyrri spurningunni var auðvitað ekkert svar. Guð má vita um hvað Kaí var að tala. Ekki veit ég það allavega. Ég er enginn sérfræðingur. En það hefði verið súrt að birta það ekki. Jafnvel glæpur.

Við seinni spurningunni mátti auðvitað velta vöngum yfir einu: Var þessi Guðmundur “Sigfússon” eins og bæjarverkfræðingurinn eða var hann “Bjarnason” eins og bæjarstjórinn. Þetta hefur aldrei komist á hreint og þess vegna liggja þeir báðir undir grun enn þann dag í dag. Sennilega hefði verið rétt að krefja Kaí um föðurnafn embættismannsins. Og birta það.

En í þessu pældu menn út og suður og ég leyfi mér að fullyrða að sjaldan hafi héraðsfréttablaðið Austurland verið jafn mikið til umfjöllunnar í eldhúsum Norðfirðinga. Menn voru ekki sammála um neitt. Nema eitt: Umfjöllun Austurlands var hneyksli og augljóst að það þurfti að skipta um ritstjóra. Helst þurfti heimamann í stólinn. Einhvern sem “þekkir til” eins og menn sögðu.

Varla þarf að taka fram að blaðið seldist upp. Þorparinn er alltaf samur við sig, blessaður.

Ég og Kaí töluðumst ekki við í tvö ár. Við hittumst samt oft enda bjó hann í næsta húsi. Þegar við mættumst byrjaði Kaí að blístra og svo horfði hann upp í fjall, þóttist taka eftir einhverju nýju. Ég horfði niður og blístraði. Ég sparkaði í stein ef ég gat.

En það kom að því að ég þurfti að setja mig í samband við Kaí. Ritstjóri helgarblaðs DV tók ekki í mál að birta grein um draugahúsið í Viðfirði án hinnar frægu myndar af drauginum í glugganum.

“Þú verður að finna myndina,” sagði ritstjórinn og skellti á.

Ég vissi alveg hvar ég átti að byrja að leita. Kaí er Viðfirðingur. Og hann bjó í næsta húsi.

En leitin hófst ekki hjá honum. Ég leitaði í skjalasöfnum og heima hjá öllum Viðfirðingum í þorpinu nema þessum þarna hinum megin við götuna. Alls staðar greip ég í tómt. Myndin var í láni einhvers staðar, týnd eða eitthvað. Og allir sögðu það sama: “Talaðu við Kaí!”

Þegar ritstjórinn hótaði að birta ekki greinina án hinnar sögufrægu myndar lét ég slag standa og þrammaði yfir götuna. Ég var jú ungur og metnaðarfullur blaðamaður. Ég man að ég hugsaði um hversu gott það væri nú ef heimsóknin væri af annarri rót sprottin. Af hverju gat ég ekki bara heimsótt hann sem sonur nágrannans? Af hverju þurfti ég endilega að hafa aftur samband við hann sem blaðamaður? Djöfullinn bara!

Eins og þið getið ímyndað ykkur var Kaí undrandi þegar hann sá hver stóð í tröppunum. Ég átti alveg eins von á því að hann myndi reka mig í burtu og bar upp erindið feimnislega. En þá gerðist svolítið skrýtið. Kaí tók vel í erindið og spurði mig meira að segja af hverju ég hefði ekki komið fyrr. Hann bauð mér inn í kaffi og myndina lánaði hann mér með tveimur skilyrðum:

Í fyrsta lagi: Ég átti að fara vel með myndina og skila henni í sama ástandi og ég fékk hana.

Í öðru lagi: Ég átti ekki að minnast á drauga í greininni. Þetta voru nefnilega ekki draugar heldur eitthvað annað. Hann notaði eitthvað orð yfir þessi fyrirbæri sem ég man ekki í augnablikinu en ég kann ekki við það akkúrat núna að eigna honum eitthvað sem hann sagði ef til vill aldrei. En þessir framliðnu andar voru ættingjar hans og hann leit ekki á þá sem drauga heldur eitthvað annað.

Þetta var lítið mál líka. Greinin var ekki enn farin til ritstjórans og ég þurrkaði út eins mikið af “draugum” og ég gat þótt ég gæti auðvitað ekki fullkomlega orðið við bón hans. En ég var heiðarlegur og sagði honum frá því að hann gæti átt von á að sjá orðið “draugur” og “draugagangur” á stöku stað í greininni. Það yrði hinsvegar ósköp saklaust. Kaí var klökkur yfir tillitssemi blaðamannsins og þakkaði honum fyrir með faðmlagi. “Vertu sæll, ungi vinur,” sagði hann. Minnir mig.

Allavega. Allt var orðið eins og áður. Öll dýrin í skóginum voru vinir. Ég og Kaí stoppuðum þegar við mættum hvor öðrum í götunni og ræddum um fiskirí og veðurfar.

Þegar ég sá síðan greinina í blaðinu var mér eilítið brugðið. Ritstjórinn sagðist hafa “barnað” greinina “aðeins” en ég vissi ekki við hvað hann átti og spurði einskis. Ég var of spenntur.

Hann átti við þetta: Hann hafði skrifað inngang. Þar var talað um drauga, sem var svosem allt í lagi, en þar var líka talað um “ófreskjur”, “skrímsli”, “útfrymi” og “hlekki”.

Úbbs, hugsaði ég.

Seinna um kvöldið fór ég út að ganga. Þegar ég kom útúr dyrunum sá ég Kaí að ditta að blómabeði í garðinum sínum. Hann sá mig líka og ég heyrði fúkyrðin á eftir mér út alla götuna. Ég komst ekki í skjól fyrr en ég var kominn uppfyrir snjóflóðavarnargarðinn. Í fyrsta sinn fann ég fyrir sjálfshatrinu sem plagar flesta blaðamenn á einhverju skeiði ferilsins. Svona þangað til þeir hætta.

Fært undir Óflokkað. 5 ummæli »

Draugar fortíðar

Það fyrsta sem ég skrifaði mér til ánægju var ferðaörsaga til Viðfjarðar sem kallaðist „Í félagsskap Viðfjarðarundra”. Hugmyndin var ekki mín heldur Páls Ásgeirs Ásgeirssonar sem þá var ritstjóri helgarblaðs DV en hann var og er mikill áhugamaður um yfirskilvitlega hluti eins og þjóðin veit. Hann hafði lesið grein eftir mig um Pjetur í Tónspil í sama blaði og ég ímynda mér að það hafi kannski verið þess vegna sem hann hringdi í mig og bað mig um að gista í draugahúsi.

Það undarlega er að þessi saga, sem á köflum er vandræðalega illa skrifuð, vakti talsverða athygli. Fólki fannst frásögnin frumleg og mér fannst það sjálfum þar til ég byrjaði að lesa mér til um blaðamennsku. Frásögnin er nefnilega alls ekki frumleg heldur á hún sér djúpar rætur í blaðamennskuhefð sem oftast er kölluð „screwball journalism”, eða kjánablaðamennska, og var stunduð af miklu kappi af blaðamönnum Hearst-dagblaðanna í Bandaríkjunum í kringum aldamótin 1900. Blaðamennska af þessu tagi er náskyld svokallaðri „gulri pressu” en er samt ólík henni að því leyti að hún er ópersónulegri og ekki eins ósvífin. Kjarni hennar er fólgin í afstöðu blaðamannsins en hann verður að setja sig í spor heimskingjans svo hann geti sagt kjánalega frá. Þetta hefur ætíð reynst mér auðvelt/náttúrulegt.

Þótt helsta markmið kjánablaðamennsku sé að skemmta lesandanum er það samt ekki alltaf raunin þ.e. tilgangurinn getur verið alvarlegs eðlis þótt framkvæmdin sé sprenghlægileg. Ágætis dæmi um þetta er þegar blaðamaður San Fransisco Examiner stökk í sjóinn við einhverja bæjarbryggjuna í hinu ört stækkandi sjávarplássi. Tilgangurinn: Jú, að sjá hversu langan tíma það tæki nýstofnaða björgunarsveit San Fransisco að koma til bjargar. Það er skemst frá því að segja að björgunarsveitin sást hvergi og blaðamaðurinn varð að koma sér í land hjálparlaust. Hann sat uppi með lungnabólgu en samt var hann í skýjunum. Kominn með hörkuskúbb.

Sagan úr Viðfirði er samt bara afþreying og þar sem ég hef ekkert til að blogga um ætla ég að birta hana hér. Sagan fór svona til DV (hef lagað málfar á stöku stað) en hún birtist svo með smávægilegum en afdrifaríkum breytingum ritstjórans snemma í apríl 2002. Meira um hin dramatísku eftirmál seinna sem voru langt frá því jafn kjánaleg og þessi saga.

Í félagsskap Viðfjarðarundra

Það er dæmigert austfirskt vorkvöld og ég er um borð í trillu á leiðinni frá Norðfirði suður til Viðfjarðar, frægasta samkomustaðar drauga á Íslandi. Ég ætla að dvelja eina nótt í yfirgefnu húsi sem stendur einsamalt innarlega í firðinum. Ýmsar spurningar fljúga í gegnum huga minn. Til dæmis: Í hvernig fötum ætti ég að vera klæddur í Kastljósinu hjá Evu. Eftir fáeina klukkutíma verð ég jú fyrsti blaðamaðurinn í veröldinni sem tekur viðtal við draug.

Ég vakna upp úr dagdraumunum þegar félagar mínir tveir leggja til að við ættum að gera kvikmynd um þessa ferð. Þeir stinga upp á nafninu „Gráhærður á einni nóttu”, og skellihlæja. Ég hlæ með þeim en í raun finnst mér þetta ekkert fyndið. Í raun er ég nefnilega hálfsmeykur því síðan áætlanir mínar um þessa ferð kvisuðust út hefur fólk verið óvenju duglegt að segja mér draugasögur. Daginn áður hafði ég t.d. setið á barnum og spjallað við ungan mann sem oft hafði farið yfir í Viðfjörð en aldrei, fullyrti hann, myndi hann nokkru sinni þora að gista einsamall í húsinu. Þá fór ég að efast.

Hvað ef þetta er satt? spyr ég mig í hljóði þar sem ég sit á einhverri netahrúgu en ber mig samt karlmannlega í viðurvist félaga minna. Kröftug vindkviða skellur á bátnum og ég missi jafnvægið og missi kaffibollann minn í sjóinn. „Þetta er aðvörun!” kallar annar þeirra og brosir kvikindislega. Ég er með hnút í maganum en það of seint að snúa við. Allir bæjarbúar myndu hlæja að mér ef þessi mikla frægðarför breyttist í hrakför. Það yrðu sagðar háðsögur um mig næstu áratugina. Ég yrði aðalnúmerið á næsta þorrablóti. Ég fullvissa sjálfan mig að þetta sé þess virði. Hvað sem gerist mun viðtal við Sandvíkur-Glæsi tryggja mér frægð og frama um aldur og ævi. Hégóminn er harður húsbóndi.

Við höfum lagst að bryggju og ég geng síðasta spölin að húsinu einsamall. Félagar mínir föðmuðu mig að skilnaði. „Þetta gæti verið okkar síðasta samverustund,” sagði annar þeirra. Ég hlæ en er ekki í rónni.

Samt róar það mig ögn að húsið lítur vel út að utan enda nýlega uppgert. Þetta er stórglæsilegt hús, teiknað af Guðjóni Samúelssyni, sá hinn sami og teiknaði Þjóðleikhúsið og fleiri merk hús á Íslandi. Hér bjó fólk frá 1930 fram á miðjan sjötta áratuginn. Engar sögur fara af því að það hafi flutt burt vegna draugagangs.

Ég opna kjallaradyrnar upp á gátt og kalla: „Hér sé guð!” Það svarar mér enginn og ég held inn. Það fyrsta sem ég rek augun í er mannshöfuð tálgað úr tré. Það fer hrollur um mig en hugsunin um Evu í Kastljósinu róar mig. Ég held áfram upp stigann og geng framhjá höfðinu og rakleitt upp á efstu hæð og finn herbergið sem hin sögufræga mynd var tekin*. Hér hlýtur að vera líklegast að draugar geri vart við sig, hugsa ég. Ég læt frá mér svefnpokann og nestið og tek aðeins það nauðsynlegasta með mér niður í stofu. Þar ætla ég að sitja fram að miðnætti og lesa Viðfjarðarundrin hans Þórbergs og skrifa í glósubókina. Klukkan er orðin tíu og það er enn bjart.

Ég geng um húsið og dáist að því hvað menn hugsuðu stórt einu sinni. Einu sinni dugði ekkert minna en þriggja hæða einbýlishús, velti ég fyrir mér. Núna vill fólk bara íbúð í blokk og nýlegan japanskan bíl. Ég hleypi frá mér hljóðlausum hlátri. „Best að byrja að punkta niður hjá sér”, segi ég upphátt. Röddin verður hálf einmana í þögninni sem er alger. Ég geng inní stofu, kveiki á tveimur kertum, sest í sófann, dreg borðið að honum og tylli löppunum á það. Ég kveiki mér í sígarettu. Nú verður skrifað.

Eftir tuttugu mínútur án nokkurs árangurs (bara nokkrar myndir af Monty Burns en undanfarið hef ég verið að æfa mig að teikna persónurnar úr Simpsons) gefst ég upp og gríp niður í bókina hans Þórbergs. Ég les um „Þann gamla”. Þessi draugur hrellti íbúa þessa húss fyrir 65 árum síðan eða svo en hann birtist alltaf þegar menn voru vel við skál. Efahyggjumaðurinn í mér sannfærist um að sögur um tilvist drauga séu stórlega ýktar. Þar fyrir utan virtist „Sá gamli” vera sárameinlaus.

Ég anda léttar.

„Kannski eruð þið bestu skinn”, segi ég upphátt og stend upp því mér er orðið kalt. Ég hef ekkert nema tvö kerti til þess að ylja mér við. Móðan úr munninum á mér minnir á einhverja hryllingsmynd sem ég sá um daginn en þá táknaði hún að eitthvað skelfilegt væri í aðsigi. Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds. Hræðslan hefur náð tökum á mér á svipstundu.

Ég get ekki bægt hugsunum um drauga frá mér. Hjartslátturinn er orðinn hraður og ég er kominn með innilokunarkennd. Mér er skapi næst að fara út og fá mér göngutúr en klukkan er orðin ellefu og það er orðið dimmt. Ég lít út um gluggann og sé aðeins myrkur - ég þori ekki út. Og var ekki bjart rétt áðan? Allt í einu heyri ég hurðaskell og eitthvað í stofunni fellur á gólfið. „Hvur djöfullinn gengur á?!” æpi ég og stend sem lamaður á miðju stofugólfinu. „Látið mig í friði!” Hvað ætla þeir að gera við mig!?

Ekkert gerist.

Ég stend grafkyrr á meðan rökhugsunin nær yfirhöndinni aftur. Þetta var einungis trekkur. Ég hafði opnað glugga áður en ég kveikti í sígarettunni og þetta var stílabókin mín sem féll á gólfið. Ég beygi mig og næ í stílabókina. Ég skrifa: „Það verður ekki draugagangur sem gerir mig bilaðan heldur mitt eigið ímyndunarafl.” Hjartað hægir á sér.

Klukkan er ennþá ellefu. Ég er pirraður. Af hverju lét ég plata mig út í þetta? Af hverju er klukkan búin að vera ellefu í hálftíma?

Ég ákveð að eina leiðin til að láta tímann líða sé að sofna. Ég næ mér í nokkur gömul Mannlíf sem liggja í bunka undir stofuborðinu og geng rólega upp stigann. Það brakar við hvert skref. Þetta er gamalt hús og vindurinn úti þvingar sér inn um allar glufur og sprungur. Það heyrist væl og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til eigna það framliðnum börnum. “Af hverju eru börn svona óhugnarleg?” skrifa ég í bókina. Glósurnar eru orðnar handahófskenndar og ég velti því fyrir mér hvort ég muni nokkuð skilja í þeim ef ég kemst heim…afsakið, þegar ég kemst heim.

Ég kem mér fyrir í svefnpokanum en ég er ekki syfjaður. Ég veit ekki af hverju en einhverra hluta vegna finnst mér mikilvægt að sofna fyrir miðnætti. Þögnin heldur fyrir mér vöku. Og þar fyrir utan er ég í herberginu þar sem „Myndin” var tekin. Ég skil hurðina eftir opna. Til hvers? Jú, til að flýta fyrir útgöngu. Það þýðir ekkert að hoppa út um gluggann ef eitthvað kemur upp á. Ég er á þriðju hæð og fallið er einfaldlega alltof hátt! Ef ég fótbrýt mig er ég í vondum málum!

Þetta fannst mér hinar eðlilegustu hugsanir en ég skrifa þær ekki niður. Þið hljótið að skilja það.

Ég skoða Mannlíf og fletti framhjá grein sem fjallar um dáleiðslu og glæpi. Ég er ekki í stuði fyrir neitt yfirnáttúrulegt og staldra við grein um átök innan Alþýðubandalagsins eftir dr. Svan Kristjánsson. Þarna eru myndir af ótal draugum sem enn eru á lífi í dag. Greinin er sem betur fer óspennandi og ég finn til þreytu. Kannski sofna ég fyrir miðnætti en þá verður mér hugsað til mörunnar sem lagðist yfir vin minn fyrir nokkrum árum. Hann sagðist hafa verið hársbreidd frá köfnun þegar þáverandi unnusta hans vakti hann. Ég skelf við tilhugsunina.

Ó, guð! Ég þori hvorki að vaka né sofa!

Ætli klukkan hafi ekki verið um þrjú þegar ég sofna. Þetta var ekki djúpur svefn enda enda erfitt að sofna þegar maður er á verði. Hið minnsta rask varð til þess að ég reis upp við dogg og athugaði málið. Um átta leytið skreið ég á fætur og gekk frá dótinu mínu. Ég ætlaði mér ekki að vera hér mínútu lengur en þörf krafði.

Úti var þoka og ég hugsaði með mér að þá gæti ég tekið nokkrar „spúkí” myndir fyrir blaðið. Mér létti. Bæði vegna þess að ég var byrjaður að hugsa um þessa ferð sem verkefni en líka af því að ég var kominn undir bert loft. Ég gekk í átt að bryggjunni. Án þess að ég gerði mér grein fyrir því þá gekk ég hratt. Ég hljóp og gekk til skiptis.

Ég sit á bryggjupollanum og virði fyrir mér húsið. Ég skrifa í bókina mína: „Það eru til draugalegri hús í Grafarvoginum sem þó eru nýbyggð.”

Ég skrifa meira:

„Varð ég var við eitthvað? Sennilega ekki. Kannski fannst draugunum ég vera of aumkunarverður til að gera at í mér eða kannski vilja þeir ekki láta taka viðtal við sig. Það væri hvort eð er óttalega hallærislegur draugur sem gæfi kost á sér í þess háttar.”

Loksins verð ég var við trillu sem þó er komin klukkutíma áður en ákveðið var. Ég stekk um borð en hrasa næstum því sjóinn. Ég er ennþá stirður eftir nóttina.

„Jæja, varstu hræddur?” spyr skipstjórinn, sem að auki er pabbi minn, og býður mér nýlagað kaffi. Ég svara að sjálfsögðu neitandi og segi þetta hafa verið „pís of keik”. Hann veit að ég er að ljúga og segir við mig: „Þú veist að draugar hafa tilhneigingu til að birtast þar sem fólk er saman komið. Annars eru þeir yfirleitt til friðs.” Ég næ í bókina mína og skrifa þetta niður. Fín lokaorð, hugsa ég.

Þegar við erum komnir áleiðis út Viðfjörð lít ég til baka. Húsið er horfið inní þokuna. Ég er feginn að þessi ferð varð ekki tilefni til að heimsækja Evu í Kastljósinu. Ég vil ekki verða frægur fyrir að verða gráhærður á einni nóttu. Ég helli kaffinu í sjóinn. Ég get ekki drukkið það vegna skjálfta.

* Á þessari frægu mynd sést móta fyrir andliti í glugga eins herbergisins. Hún er ófölsuð. Breski herinn segir það er manni sagt.

 

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

Þriðjudagsbúggí

Hef nýlokið við lestur bókarinnar Dylan on Dylan. Þetta er stór bók, heilar fimm hundruð blaðsíður, og inniheldur þrjátíu og eina grein um Bob Dylan, mestmegnis viðtöl, en líka fítjöra eftir blaðamenn og rithöfunda. Elsta greinin er frá 1962 og sú yngsta frá 2004.

Á kápu bókarinnar er vel valin tilvitnun úr nýlegu viðtali:

“I change during the course of a day. I wake and I’m one person, and when I go to sleep I know for certain I’m somebody else.”

Þetta er segir ýmislegt um innihald greinanna. Stundum er Dylan bitur og reiður, stundum glaður og sáttur. En alltaf segir hann sannleikann, eða einskonar poetic truth - eitthvað sem kemur frá hjartanu. Vel má vera að hann sé í mótsögn við sjálfan sig en það hlýtur að vera eðlilegt ástand hjá hugsandi fólki.

Athyglisverð eru viðtölin sem tekin eru um miðjan sjöunda áratuginn. Um það leyti er Dylan að slíta tengslin við hina vinstrisinnuðu alþýðutónlistarhreyfingu sem hafði eignað sér hann í upphafi ferilsins en einhverra hluta vegna varð þjóðlagatónlist að tónlistarlegum armi vinstrihreyfingarinnar.

Dylan kærði sig ekki um að vera málpípa vinstrimanna eða “talsmaður kynslóðar”. Hann sagði:

“People need leaders more then a leader needs people” og forðaði sér í burtu. Gerðist poppstjarna.

Var hann þá ekki í neinum flokki? Jú, í sínum eigin. (Fram skal tekið að nokkrum árum síðar gerðist Bob Dylan bókstafstrúarmaður.)

Megas hlýtur að hafa komist yfir þetta viðtal því hann svaraði þessari spurningu eins fyrir þrjátíu og fimm árum í sjónvarpsviðtali með lepp fyrir auga.

Nú bíður mín ein bók í viðbót um Dylan. Hún heitir On the road with Bob Dylan eftir Larry Sloman sem var einn af gonzo-blaðamönnunum á árunum um og eftir sjötíu er skrifuðu í blöð og tímarit eins og Rolling stone og The Village voice. Þegar ég lýk við hana ætla ég að hvíla mig á Bob jafnvel þó ég sé kominn á þá skoðun að ég þurfi ekki að hlusta á aðra tónlist en hans.

Fann þessa tilvitnun í Hunter Thompson á Wikipedíu:

“I don’t get any satisfaction out of the old traditional journalist’s view— ‘I just covered the story. I just gave it a balanced view.’ Objective journalism is one of the main reasons American politics has been allowed to be so corrupt for so long. You can’t be objective about Nixon.”

Amen.

Annars er þetta blogg (gær)dagsins eystra. Um þetta mál reyndum við að fjalla einhvern tímann á Austurglugganum. Vonandi gera lókalmiðlarnir þessu skil núna.

Mánudagsbúggí

Aðra hverja helgi tek ég tvær tólf tíma vaktir. Þreytan sem þessar helgar skilja eftir sig er allt öðruvísi en þreytan úr frystihúsinu eða netagerðinni. Sú þreyta var líkamleg og maður náði sér aftur á strik með góðum svefni. Sú þreyta sem ég upplifi eftir þessar helgar er annars eðlis. Jú, hún stafar af því líkamlega erfiði sem fylgir því að vinna við ummönnun en líka af sektarkennd og samviskubiti. Maður er aldrei nógu næs í svona djobbi. Maður getur alltaf séð eftir einhverju sem maður sagði.

Í dag slaka ég á. Er að hlusta á merkilega plötu með Allmanbræðrabandinu. Hún heitir Eat a peach og er fyrsta platan sem bandið gaf út eftir dauða gítarleikarans Duane Allmans en Duane þessi átti m.a. upphafsriffið í Laylu hans Eric Claptons.

Þessi Suðurríkjarokkari lést í mótorhjólaslysi og gaf þar með tóninn fyrir vinsælustu útgönguleið Suðurríkjarokkara á áttunda áratugnum. Megnið af Lynyrd Skynyrd fóru í slysi og einhverjir fleiri sem ég man ekki nöfnin á. Í grófum dráttum er þetta kannski svona: Suðurríkjamenn deyja í slysi, Norðurríkjamenn óverdósa og Evrópumenn kála sér. Svona í grófum dráttum allavega.

Um þessa hljómsveit verður fjallað í þættinum mínum, Svarta albúmið, sem útvarpað verður á rauðhausum.com eftir nokkrar vikur. Þar verður mikið fjallað um hin órjúfanlegu tengsl hryllings og rokktónlistar. Stay tuned…

Fræga fólkið ætlar í framboð vor. Hver ætli fari í framboð fyrir þá eystra? Ég er með tillögu fyrir efstu sætin:

1. Vilhjámur Einarsson, silfurhafi.

2. Sigmar Vilhjálmsson, fjölmiðlamaður og sonur silfurhafa.

3. Kiddi vidjófluga, kaupmaður.

4. (baráttusæti) Einar Ágúst Víðisson, evróvisjónmaður og alltmúligmann.

5. Grétar Sig, lík- og athafnamaður.

Og einhverjir fleiri. Nenni þessu ekki.

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Gotinn

Í dag sá ég gothara (köllum hann bara gota þó það sé villandi). Ég hef oft séð gota áður en þá í öðru samhengi t.d. í stórborgarsamhengi þar sem þeir eru bara enn eitt kryddið í tilveruna, eins betlarar, rónar og eskimóar.

Það er hins vegar mjög áhrifaríkt að sjá jaðarhóp eins og gota í Bónus á Egilsstöðum og manns eigið normalítet verður yfirþyrmandi. Eins og ekta þorpari snýr maður sér við og glápir á fyrirbærið, gerir svona “dobbulteik” eins og maður gerði þegar maður sá Færeying í fyrsta sinn, og svo hvíslar maður í eyra kærustunnar: “Sérðu hann!” Og maður byjar að tísta eins og þorpskerla á þorrablóti.

Ég hafði að vísu séð þennan gota áður. Ég sá hann í einhverri sjoppu þar sem hann afgreiddi mig um kók og súkkulaði. Þegar kom að því að kvitta undir debetnótuna fundum við ekki penna og gotinn fylltist einhverri taugaveiklun, fannst það sennilega full “banal” og plebbalegt að finna ekki penna. “Æi, notaðu bara nöglina,” sagði hann pirraður þegar viðskiptavinurinn á eftir mér var orðinn óþolinmóður.

“Nöglina?” spurði ég undrandi enda skildi ég hann ekki. Hann nennti ekki að ansa mér heldur reif af mér nótuna og nuddaði sinni svartnaglalökkuðu nögl á línuna eins og ekkert væri sjálfsagðara. Svo sýndi hann mér nótuna og spurði hvort ég væri ekki sáttur. Aldrei á ævinni hefur mér liðið eins og jafn miklum “square”.

En hugmyndir mínar um gota, líkt og hugmyndir mínar um fólk yfirleitt, voru augljóslega byggðar á vanþekkingu. Þegar ég sá hann í Bónus var hann nefnilega í fylgd feitrar konu sem var bara venjuleg eins og ég. Hún skipaði honum fyrir í hvert sinn sem þau gengu framhjá hillu, “náðu í þetta” og “náðu í hitt”, og hann hlýddi eins og maður sem veit að hann á barnið sitt með eldri og mun lífsreyndari konu. Þegar þau komu að afgreiðsluborðinu var kerran full af barnamat, bleium, brauði og mjólk. Engin dökk vínber og ekkert dökkt súkkulaði (en gotar úða því í sig segja sérfræðingar mér).

Hvað um það. Eins og ég bjóst við þá borgaði hún og hann raðaði í poka. Hann gerði það samviskusamlega og setti mjólkina á undan brauðinu. Hún hrósaði honum fyrir það. Hann roðnaði og brosti.

Frægasti maðurinn sem ég hitti í dag var silfurhafinn Vilhjálmur Einarsson.

Góða helgi, kæru lesendur.

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

Dagur 2

Kæra dagbók,

Ég hélt áfram að safna skeggi í dag en nú er liðin vika síðan söfnunin hófst. Þetta er í annað sinn sem ég reyni að safna skeggi. Í fyrra skiptið safnaði ég reyndar bara yfirvaraskeggi. Ég gerði það fyrir föður minn sem þá var á sextugasta aldursári og hefur, eins og þú veist, eitt fallegasta yfirvaraskeggið á mið-Austurlandi. Þér að segja gekk það nokkuð vel og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sagði að ég liti út eins og þýsk klámstjarna þega ég hitti hann í teiti hjá ungum jafnaðarmönnum. Ég vissi auðvitað ekkert um það en mér þótti vænt um viðurkenningu formannsins þótt hann sé lúser. Hann er samt vænsti kall.

Ég rakaði það af mér stuttu síðar þegar ég sá bassaleikarann í Botnleðju í miðbæ Reykjavíkur skarta yfirvaraskeggi. Ég vildi ekki líta út eins og fífl en hann er sjálfsagt vænsti kall líka.

Kæra dagbók, eins og venjulega er ég útbrunninn í vinnunni minni og í dag hringdi ég í konu sem auglýsti í lókalblaðinu eftir starfskrafti. Hún sagði að ég væri “ofmenntaður”.

“Ég þyrfti að borga þér svo há laun!” sagði hún og hló dillandi hlátri eins og viðrinið í Spilverki þjóðanna. Hvað var svona fokkin fyndið, heimska belja!? Neinei, ég meinti þetta ekki.

Þegar maður sækir um lélegt starf og fær það ekki þá er allavega eitt komið á hreint: Maður er lúser. En jæja. Það gengur bara betur næst.

Kæra dagbók, mér gengur illa að fá vinnu þurfi ég að fara í viðtal. Ég veit alveg hvers vegna. Mér finnst svona viðtöl bara yfirborðsleg og heimskuleg. Og já, umfram allt fyrir neðan mína virðingu. Svo þú vitir það þá tala ég af reynslu. Einu sinni, þegar ég var nýkominn heim úr námi, fór ég nefnilega í viðtal til Mannafls eða einhverrar svona ráðningarskrifstofu. Drengurinn sem tók viðtalið við mig var nokkrum árum yngri en ég, líklega nýútskrifaður úr viðskiptafræði eða mannauðseitthvað. Hann var í óaðfinnanlegum jakkafötum, með óaðfinnanlega hárgreiðslu og lyktin af honum var something else. Líklega nýjasti ilmurinn frá Puma. Eða Hugo. En viðtalið var einhvern veginn svona:

Drengurinn í jakkafötunum: Ég sé að þú ert nýkominn heim úr námi.

Ég: Já, það er rétt.

DÍJ: Varstu í Englandi?

Ég: Já, stendur það ekki þarna? Ég lýg engu sko.

DÍJ: Neinei. Ég meinti það ekki.

Ég: Allt í lagi. Ég er bara soldið stressaður sko. Hef aldrei farið í svona viðtal áður. Alltaf fengið vinnu í gegnum klíku sko…

DÍJ: Ha?

Ég: Nei, ég er að djóka! En ég er samt soldið stressaður.

DÍJ: Ha, nei, já. Þú þarft ekki að vera stressaður. Við skulum bara hafa þetta óformlegt. Viltu ekki bara segja mér frá meistararitgerðinni þinni?

Ég: Tja, ég notaði hugmyndir franskra póststrúktúralista eins og Derrida og amerískra póstmódernista eins og Lawrance Grossbergs, eða Larry Grossbergs, til að varpa ljósi á íslenskt hipphopp. Ég orðræðugreindi íslenska rapptexta og reyndi að sjá hvernig tónlistarmennirnir “authentíkera” tónlistina en eins og þú veist skiptir miklu máli í hipphoppi að vera “ekta”. Keep it real eða þannig. Ritgerðin hét einmitt Keeping it real in an unreal world. Reyndar er hugmyndin um að vera ekta áberandi þáttur í hugmyndafræði rokktónlistar og…

DÍJ (hikandi): Einmitt. Athyglisvert…? Og ehhh…og…áhugavert…? Eða já…? (Hann endaði allt sem hann sagði í alvörunni með spurningamerki)

Ég: Já, þú getur lesið um rannsóknina í Veru sko. Ég skrifaði grein. Mér finnst mikilvægt að koma þessari þekkingu til fólksins sko. Fengið rosa viðbrögð sko.

DÍJ: Já, einmitt.

(Þögn)

DÍJ: Já. Einmitt sko.

(Þögn)

DÍJ: Ehhh…Viltu bæta einhverju við?

Ég: Ja, ertu með einhverja vinnu handa mér?

DÍJ: Þú segir nokkuð já! Haha! Þú ert aldeilis brattur!

(Þögn)

DÍJ (alvarlegur): Þú ert sumsé sérfræðingur í hipphoppi?

Ég: Ja, þannig séð já.

DÍJ: Þú vilt ekki vinna í banka?

Góða nótt, elsku dagbókin mín. Ég hitti þig á morgun. Ég lofa.

Fært undir Óflokkað. 1 ummæli »

Kæra dagbók

Ég hef ákveðið að taka upp nýjan stíl á þessu bloggi í nokkra daga. Ég ætla að halda úti venjulegri dagbók líkt og unglingsstúlkur gera og segja frá hverjum degi á eins hlutlægan hátt og kostur er. Hver dagbókarfærsla hefst með orðunum “Kæra dagbók” og svo trúi ég henni fyrir leyndarmálum mínum. Ég ætla ekki að þyrma neinum nema kærustunni minni. Með því er ég auðvitað strax búinn að eyðileggja þetta gelgjuþema en þannig verður það að vera. Við búum jú saman.

Kæra dagbók,

Í dag ákvað ég að halda dagbók. Ég hef ekki haldið dagbók í sjö ár en fyrstu vikurnar í Leicester skrásetti ég nokkuð nákvæmlega hvað bar fyrir augu á hverjum degi. Það er sorgleg lesning skal ég segja þér og ekki eitthvað sem ég heimsæki reglulega. Ég skrifaði aðallega um stelpuna í næsta herbergi og hefði ég myrt hana seinna um veturinn hefði dagbókin nær örugglega komið upp um mig. Ég var totally obsessed.

Ekki það. Dagbækur hafa svosem áður komið við sögu í lífi mínu. Þegar ég var átján ára komst ég yfir dagbók stelpu sem ég var hrifinn af. Þar las ég að henni þætti ég vera þreytandi til lengdar. Ég beið eftir henni fyrir utan heimili hennar á meðan hún var í skólanum og húðskammaði hana þegar hún kom heim. “Ég hef aldrei verið jafn særður á ævinni,” sagði ég við hana og hún skammaðist sín. Vitanlega. Hún var ekki sækópati.

Ég vaknaði klukkan sjö í morgun og byrjaði strax að stela tónlist af netinu. Ég er búinn að stela fjórum klukkutímum af efni og er hvergi nærri hættur. Svo ég fái ekki sektarkennd beiti ég gömlu trixi. Ég hugsa: Hvað ætli plötufyrirtækin séu búin að ræna miklu af mér?

Ég hef notað þetta trix í fjöldamörg ár. Mig minnir að ég hafi notað það fyrst þegar ég kom aftan að besta vini mínum á malarvellinum í Neskaupstað og henti lófafylli af möl í hnakkann á honum. Að ástæðulausu. Vinur minn fór að skæla (vitaskuld) en áður en ég fylltist sektarkennd hugsaði ég um Strumpabókina sem ég fann í ruslinu heima hjá honum nokkrum dögum áður. Ég hafði gefið honum hana í afmælisgjöf. Minnir að þetta hafi verið bókin um Strumpastríðið.

Ég kveikti á sjónvarpinu fyrir hálftíma síðan. Ungur framsóknarmaður, varaþingmaður í mínu kjördæmi, las ræðu af blaði. Hún fjallaði um tvískinnung VG í umhverfismálum. Eitthvað um að þeir hafi mætt á bílum á landsfundinn sinn eða eitthvað svoleiðis. Hann byrjaði ágætlega en forsetinn, sem í þetta skiptið var Jón Kristjánsson, truflaði hann áður en hann komst alminilega á skrið. Ég man ekki útaf hverju. Hann gleymdi einhverjum prótókól býst ég við. En hann fipaðist verulega við truflunina: “Og hvar er nú umhverfisstefnan?” spurði hinn ungi þingmaður hikandi í lokin og horfði meðvitaður yfir salinn. Hann sagði þetta ekki sigri hrósandi eins og hann ætlaði að gera þegar hann undirbjó ræðuna í gærkvöldi með bestu vinkonu sinni sem hann langar til að byrja með. En hún vill það ekki. Er skotin í blökkumanni í Grindavík. Hann vonar að með þingsetunni, þó hún sé stutt, eigi hann betri séns.

Réttast hefði verið fyrir unga framsóknarmanninn að biðjast afsökunar í þinginu og fara heim til sín. En það gera þingmenn ekki. Ekki einu sinni varaþingmenn.

Hvað um það. Kæra dagbók, alltaf eyðileggur Jón allt.

Sem minnir mig á það! Ég sá Jón í Bónus síðasta sumar. Ég elti hann í nokkrar mínútur og fylgdist með innkaupunum hans. Svona nokkurs konar mannfræðistúdía skulum við segja, kæra dagbók. Nafni minn keypti ósköp venjulegan mat og virtist ekki vera á neinum sérstökum kúr. Við stóðum saman í biðröðinni í tíu mínútur en þegar röðin kom að Jóni afsakaði hann sig og hljóp í burtu. Afgreiðslustúlkan hristi hausinn pirruð og ég reikna með því að Jón geri þetta alltaf þegar hann verslar í Bónus. Sennilega er hann ekki vanur svona miklu úrvali.

Því miður afgreiddi stelpan mig á meðan Jón var í burtu þannig að ég veit ekki hvað það var sem Jón gleymdi. Stundum, þegar mig vantar eitthvað að gera, ímynda ég mér hvað það var sem hann gleymdi þarna um sumarið. Hverju gleymdi Jón, hugsa ég. Var það tekkolía? Plástur? Allavega örugglega eitthvað sem maður kaupir ekki á hverjum degi.

Jæja, kæra dagbók. Ég bið að heilsa þér. Ég skrifa aftur á morgun. Ég lofa.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »

FM

“…og þá fékk Forrest Whittaker, Íslandsvinurinn knái, Óskarinn fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin. Til hamingju, Forrest!” hrópaði drengurinn í útvarpinu. Þegar hann sagði “Idi Amin” heyrði ég hann hugsa: “Idi Amin?! Hvað er nú það? Djöfull eru þeir klikkaðir þarna í Hollywood!”

Hann var ekki búinn:

“Heyrum hér næst í strákunum í Son of dork. Þeir eru að gera það gott þessa dagana og eru sumir farnir að kalla þá hina nýju Bítla. Ja, af hverju ekki?” sagði fíflið. Ég gekk að útvarpstækinu og slökkti. Mig langaði til að skjóta einhvern. Bara einhvern.

Dreifarapopp

Ég talaði við mann úr Jökuldalnum um daginn. Hann sagðist sofna við niðinn í ánni á kvöldin. Nokkuð rómantískt. Ég bý líka á Austurlandi en ég sofna við vélarhljóð í skurðgröfum og öskur í Pólverjum. Ég bý fyrir ofan kirkjugarðinn.

Jón Ólafs var með eitthvað landsbyggðarþema á laugardaginn. Einn af viðmælendum hans var vinur minn og fyrrum hljómsveitarfélagi Jón Hilmar Kárason. Vera hans í þættinum meikaði engan sens fyrr en ég sá nafnið hans Dána á spjaldinu í Popppunktsspilinu í gær. Ég verð kominn í Laufskálann fyrir helgi.

Annars er dapurlegt hvað landsbyggðarpopp er leiðinlegt. Ástæðan er einföld: Hér spilar hæfileikaríkasta fólkið á böllum. Úr þessum jarðvegi spretta góðir hljóðfæraleikarar en fáir popptónLISTARmenn - menn eru of uppteknir við að borga upp söngkerfið. Þeir sem neita að taka þátt í þessu flytja suður.

Þetta er samt ekkert lögmál. Í Bandaríkjunum hafa margar góðar grúbbur komið frá landsbyggðinni. Nægir að nefna R.E.M. og Drive by truckers. Þessar hljómsveitir virða ræturnar (kántrí og blúgras) en þær hafa líka drukkið í sig borgarsánd eins og pönk.

Ég vil að þetta gerist á Austurlandi. Menn eiga að hlusta á Inga T. Lárusson en spila eins og strákarnir í Ham. Og þennan bræðing á ekki að flytja á böllum.

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

Popppunktur

Spilaði Popppunktsspilið í kvöld. Um margt ágætis spil en slær ekki út Trivialinn sem ber höfuð og herðar yfir önnur spurningaspil. Ég vann (að sjálfsögðu) en ekki með neinum sérstökum yfirburðum eins og ég átti von á. Tvennt vakti athygli mína:

1. Ég fékk að minnsta kosti tvær spurningar sem snerust um hljómsveitina Bubbleflies. Var þetta eitthvað satanískt djók hjá spurningahöfundi? Af hverju var ekki bara spurt um bílskúrsbandið B2 sem ég og tveir vinir mínir stofnuðum með pleimóköllum í október 1981?

2. Svarið við einni vísbendingaspurningunni var Hálfdán Steinþórsson. Spurt var um tónlistarmann. Magnað.

Þetta má auðvitað ekki skilja sem svo að ég sé að gera lítið úr tónlistarhæfileikum vinar míns. Þeir eru talsvert meiri en mínir og sennilega var hann hæfileikaríkasti meðlimur sveitaballasveitarinnar Sívu frá Norðfirði. Hann samdi allavega lög sem maður gat raulað.

Mér fannst bara magnað að sjá nafnið hans á spjaldinu. Kannski þýðir þetta eitthvað. Kannski er það áfangi í lífinu að verða svar við spurningu? Ég ætti kannski að hringja í hann…

Fært undir Óflokkað. 4 ummæli »

Innansveitin

Menningarnefnd Fljótsdalshéraðs auglýsir eftir umsóknum í menningarsjóð sveitarfélagsins. Eitt af skilyrðunum er að umsækjendur séu heimamenn, að þeir hafi lögheimili á staðnum. Spielberg myndi sumsé ekki fá úthlutað í myndina sína um Fellabæ en Bibbi radíóamatör, sem búið hefur á Egilsstöðum allt sitt líf, og fékk ljósmyndadellu sl. haust, fengi hins vegar hálfa milljón í sitt verkefni er fjallar einmitt um Fellabæ líka. 

Fært undir Óflokkað. 2 ummæli »

Fíflafleyið

(Skáldskapur)

Djöfull líður tíminn hratt, hugsaði ég og horfði á skólaklukkuna á veggnum fyrir framan mig. Mér fannst eins og ég fengi verk í bakið í hvert skipti sem vísirinn hreyfðist. Eins og hann væri að ýta mér á undan sér. Ég fékk mér rauðan Ópal. Klukkan var hálf þrjú á föstudegi.

Ég stóð við “afgreiðsluborð” og beið. Með mér stóð ungur maður, á að giska um tvítugt, hann beið líka eftir afgreiðslu. Hann var ör og trommaði með hnúunum á borðið - mér heyrðist hann vera leika paradiddlur en hann hefði auðveldlega getað verið trommari í einhverju altrokk bandi, grindhoraður með lubba, buxurnar víðar og í röndóttri stuttermaskyrtu. Hann minnti mig á ungan Ian Brown.

Hlátur kom innan úr herbergi sem ég lærði síðar að kallað var vaktherbergið. Einhver kona talaði hátt. Hún sagði sögu sem virtist falla í góðan jarðveg hjá starfsfólkinu. Mér heyrðist hún fjalla um einhvern vandræðagang í Ikea. Strákurinn við hlið mér varð óþolimóðari. “Hvað gengur eiginlega á?” sagði hann og barði fastar í borðið. Enginn kom. Hann sneri sér að mér:

“Vinnur þú hérna?”

“Nei.”

“Ertu sjúklingur?”

“Nei.”

“Ertu gestur?”

“Nei.”

“Hvað ertu að gera hérna?”

“Ég ætla að sækja um vinnu.”

Ég veit ekki hvort hann heyrði svarið en af svip hans að dæma finnst mér það ólíklegt. Hann sneri sér aftur að lokuðu dyrunum og barði enn fastar í borðið. Núna lét hann fylgja með “halló!” Hláturinn í vaktherberginu þagnaði og út kom kona. Af röddinni að dæma var þetta sögumaðurinn. Hún var um fimmtugt, með dökkt krullað hár, fremur ófríð.

“Get ég aðstoðað?” Hún hafði sennilega unnið í sjoppu á unglingsárum. Hún horfði til mín og brosti: “Ert þú Jón?”

“Já, afsakaðu…”

“Heyrðu, ég er svo agalega tensaður eitthvað,” greip drengurinn framí. Honum virtist líða talsvert verr en mér. Ég fékk mér rauðan Ópal og ákvað að leyfa honum að klára sín mál. Mér lá ekkert á.

“Já, það er nú bara eðlilegt. Þú sagðir mér að þú værir að ná þér eftir kókaíntúr. Hélstu að það væri svefnlyf?” Undarleg tímasetning fyrir kaldhæðni, hugsaði ég. Hún horfði eitt agnarbrot úr sekúndu til mín og blikkaði öðru auganu. Ég blikkaði líka. Ekki búinn að vera hér í tíu mínútur og strax orðinn þátttakandi í samsæri gegn geðsjúklingi.

“Já, ég veit. En gæti ég fengið largactil, sama skammt og í morgun. Mér leið svo miklu betur.”

“Bíddu, ég þarf að tala við hjúkrunarfræðinginn.” Konan hvarf í nokkur augnablik inní herbergið en kom svo aftur að vörmu spori. “Því miður en þá getur þú ekki fengið meira af lyfjum. Þú ert þegar búinn að fá meira en þú átt að fá. Má bjóða þér eina panódíl?”

“Panódíl?! Mér líður svo illa! Ég er að fokkin drepast! Mér finnst eins og hjartað í mér sé að springa! Finndu fokkin púlsinn!” Hann rétti fram úlnliðinn sem var nýbúið að sauma saman.

“Þú skalt reyna að leggja þig. Svefninn læknar allt.”

“Ég get ekki fokkin sofnað, maður! Ég er svo fokkin stressaður!”

“Á ég að lána þér AA-bókina?”

Drengurinn horfði undrandi á konuna. Hann hefði sennilega hreytt einhverju í hana en vegna reynslu, býst ég við, vissi hann að það borgaði sig ekki. Hann setti frekar upp sinn aumingjalegasta svip og bað um sígarettu.

“Sígarettu? Ég skal nú segja þér það að rannsóknir sýna að sígarettur eru, ólíkt því sem margir halda, ekki róandi. Þær valda streitu! Má ekki frekar bjóða þér te?” Hún þurfti enga staðfestingu frá hjúkrunarfræðingi núna. Hún sagði þetta með vísindalegri vissu. Hún horfði á mig. Ég kinkaði kolli.

Drengurinn gerði lokatilraun: “Gæti ég fengið að tala við hjúkrunarfræðinginn?”

Konan hikaði: “Nei, hún er…hún er, hérna, upptekin. Hún er í símanum…á símafundi. Já, hún er á símafundi.”

“Hvenær er hann búinn?”

“Eftir klukkutíma en þá er vaktin búin.”

Drengurinn gekk í burtu. Hann settist við borð þar sem tveir aðrir ungir menn sátu og ein stelpa, aðeins eldri, sennilega á aldri við mig. Hann lét móðan mása. Hin kinkuðu skilningsrík kolli.

Konan sneri sér að mér: “Þú hlýtur að vera Jón?”

Ég kinkaði kolli.

“Það er beðið eftir þér.” Hún brosti vingjarnlega.

Hjúkrunarfræðingurinn var um fimmtugt en leit út fyrir að vera miklu yngri. Hún var grönn og seinna komst ég að því að hún hafði verið á danska kúrnum í tvö ár. Það var hennar bjargfasta trú að eitt helsta vandamál eiturlyfjasjúklinga og alkóhólista væri mataræðið. “Þeir borða of mikið af ruslmat sem ruglar efnaskipti líkamans og þar með finna þeir fyrir sljóleika. Þetta ýtir undir löngun í örvandi efni,” útskýrði hún fyrir okkur starfsfólkinu og stakk uppí sig gulrót.

“Skilvirkni er forsenda góðrar geðdeildar.” Hún sneri baki í mig þegar hún sagði þetta.

Röddin var mild en ströng og ég vissi ekki hvort hún var að ávíta mig. Ég sat upp við vegg. Hún sat á skrifstofustól sem stilltur var á hæstu stillingu. Þegar hún sneri sér við horfði hún niður til mín og ég upp til hennar.

“Afsakið að ég kem og seint. Ég þurfti að taka strætó. Þetta strætókerfi hérna er nú alveg…”

“Vertu ekkert að afsaka þig. Ég er að skrifa grein í Moggann. Fólk heldur að við séum algerir villimenn og við ætlum að breyta því. Það hluti af framtíðarsýn okkar í geðheilbrigðisgeiranum – að bæta ímyndina. Mig langaði bara til að bera þetta undir þig. Þú ert blaðamaður er það ekki?”

“Ja, ég var það allavega.”

“Eru menn ekki alltaf blaðamenn?”

“Ö, jú, líklegast.”

“Eins og skátar.”

“Ha?”

“Þú veist. Eitt sinn skáti, ávallt skáti.” Hún hló.

“Já, akkúrat.” Ég hló líka. Prýðilegur brandari býst ég við.

Hún sneri sér við og teygði sig í umslag sem lá á skrifborðinu. Ég kannaðist við það. Í því var CV-ið mitt sem ég hafði sent fyrir þremur dögum síðan. Ég fékk svar daginn eftir. Það vantaði mann strax, rétt eins og í síldinni í gamla daga. Hún opnaði umslagið og dró upp tvö A4 blöð, heftuð saman. Þetta var ævisagan mín þar sem m.a. kom fram að ég hafði haft umsjón með þáttum um Beach boys fyrir Rás 2 og skrifað fyrir Veru. Núna var ég á geðdeild. Meikar sens myndu flestir segja.

“Þú hefur litla reynslu sé ég.”

“Ha?”

“Þú hefur aldrei unnið með geðveiku fólki.”

“Nei, varla.”

“Varla?”

“Nei, ég hef ekki unnið með geðveiku fólki.” Þarna hefði ég getað sagt að ég væri aðstandandi, sem ég var í raun og veru, og því ekki fullkomlega vanhæfur. En stundum er betra að geyma trompin.

“En þú ert með meistaragráðu í fjölmiðlafræði sé ég.”

“U, já. Frá Leicester.”

“Sniðugt. Við erum einmitt með einn doktor í fjölmiðlafræði hérna og annan í stjórnmálafræði. Svo erum við með tvær stúlkur með meistaragráðu í heimspeki eða einhverju svoleiðis. Já, og reyndar einn guðfræðing líka en hann er nú eitthvað…já, eða allavega. Við erum með fjölmiðlafræðing hérna.”

“Nú? Starfsmaður þá?”

“Já, við höfum líka haft fjölmiðlafræðimenntaða sjúklinga. Nokkuð marga reyndar - flestir geðklofar ef ég man rétt. En hvað um það. Menntunin þín hentar ágætlega.” Hún hló. Ég hló líka.

“Segðu mér Jón, reykir þú?” Hún brosti og virtist vera við það að bresta aftur í hlátur.

“Ef þú átt við krakk þá hætti ég því um síðustu áramót. Bindindið stendur enn þó ég geti ekki neitað því að oft langar mig í pípu - tala nú ekki um þegar ég heyri brothljóð.”

Þetta sagði ég auðvitað ekki. Ég svaraði spurningunni neitandi.

“Drekkur þú?”

“Bara eins og gengur og gerist.” Ég fékk mér meira af rauðum Ópal og bauð henni.

“Nei, ég borða ekki sykur. Eins og gengur og gerist? Áttu við að þú sért hófdrykkjumaður?”

“Já, ég fæ mér kannski bjór þegar ég er í góðum félagsskap. Þetta er sykurlaust Ópal sko.”

“Aha, þú ert eins og ég. Nei, það festist alltaf í tönnunum.” Hún brosti. “Við höfum haft fíkil í vinnu hérna. Hann var, bíddu við, hvað var hann aftur. Jú, hann var með B.A. í bókmenntafræði.”

“Ókei.”

“Það endaði með hryllingi án þess að ég ætli að fara nánar útí það.” Þetta sagði hún skælbrosandi. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við allri þessari kátínu.

“Ég skil.”

“Þess vegna vildi ég vita hvort þú drykkir.”

“Akkúrat.”

Hún skoðaði CV-ið betur. “Ég sé að þú hefur unnið í netagerð?”

“Já, bara í stuttan tíma. Eftir menntaskóla.”

“Aha, en þetta er reynsla engu að síður. Þú þarft að vera jákvæður ef þú ætlar að vinna hérna.” Hún brosti til mín (móðurlega?) og hélt svo áfram að skoða CV-ið.

Ég þagði. Ég hef aldrei kunnað að taka hrósi (ef þetta var hrós). Þó ég gæti ekki séð í fljótu bragði hvernig reynslan úr netagerðinni kæmi að gagni á geðdeild var vitneskjan um að svo væri nokkuð hughreystandi. Það var þá kannski einhver tilgangur með þessu öllu saman.

“Velkominn um borð!”

“Ha?”

“Velkominn um borð! Ég ætla bara að ráða þig á staðnum! Mér líst svo vel á þig! Við leggjum í hann á morgun!” Hún brosti sem aldrei fyrr og fylgdi mér síðan niðrí anddyri. “Þér á eftir að líða vel hérna,” sagði hún í lyftunni. “Starfsandinn á okkar deild er sá besti í húsinu, það er búið að mæla hann. Og mundu eftir að taka með þér sodúkó. Við erum brjáluð í sodúkó!”

Á leiðinni heim hugsaði ég um líkingamálið sem hún notaði. Sennilega var það tilviljun að hún líkti geðdeildinni við skip en samt er það þekkt staðreynd að geðsjúku fólki var komið fyrir á skipum, einskonar fíflafleyjum (e: ship of fools), á miðöldum og þau látin sigla að næsta þorpi. Hrepparígurinn tekur á sig allskyns myndir, hugsaði ég.

Fært undir Óflokkað. 6 ummæli »

Bloggið

Mín yndislega Esther benti mér á að kommentið mitt neðra hefði verið óvenju geðvont - jafnvel morgunfúlt. Eftir að hafa lesið það yfir mörgum sinnum get ég sossum verið sammála. Það var einhver fýla af því.

Það er búið að kenna mér að þrífa í kommentunum en ég geri það ekki. Hérna verða öll skrif að endurspegla hugarheim bloggarans - með vörtum og öllu. Þannig vil ég hafa það og þannig vill umbinn minn líka hafa það en Nesk (bókin) á að vera “dokjúmenteisjón á lífi bloggarans”. Hann lærði kvikmyndagerð á Ítalíu og talar svona í alvörunni.

Annars finnst mér stundum að þetta konsept hafi hætt að virka daginn sem umbinn vildi gefa út. Svona skrifaði ég fyrir tæpum þremur árum síðan:

Fór í ræktina áðan og skemmti mér konunglega. Strákur um tvítugt mætti nokkrum mínútum á eftir mér og skipti strax um tónlist enda var vælið úr barkanum á Jóni Sig að gera okkur báða vitlausa. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar kunnuglegir hljómar fylltu salinn, nebbla Breaking the law með Judas Priest. Hlusta unglingar virkilega ennþá á Júðaprestinn?!

Greinilega og ræddi ég aðeins við unglinginn um þessa mússík. Fékk meðal annars að vita að söngvarinn, Rob nokkur Halford, er hommi. Ekki kemur það mér á óvart. Alltaf með úber hommalegt kaskeiti úr leðri á höfðinu, sérhannað fyrir leðurhomma. Svo var hann líka alltaf á einhverju Harley hjóli sem er mjöööög gei eins og allir vita. Allavega, skiptir ekki nokkru máli. Það er hommalegt að hlusta á Pet shop boys og ég á fjóra diska með þeim. West end girls er eitt besta popplag allra tíma. Djöfull er ég víðsýnn.

En aftur í gymmið. Skemmtilegast fannst mér samt þegar skrýtni kallinn kom inn í sal til að lækka í “þessu helvítis gargi” eins og mér heyrðist hann segja – hugsanlega ímyndun - en stundum ætlar skrýtni kallinn mann bara lifandi að drepa. Svo fór sá skrýtni aftur út til að gera það sem hann gerir einhvers staðar annars staðar og unglingurinn hækkaði í botn að nýju. Ekki liðu nema svona tvær mínútur þegar sá skrýtni kom aftur og lækkaði svo hann gæti lesið textavarpið sýndist mér.

Unglingurinn hélt sínu striki og hækkaði aftur enda var Túrbólover - eitt besta lagið með Júðunum - komið vel á skrið og homminn byrjaður að væla líkt og hann væri með Y á bólakafi í X. Skrýtni kallinn gafst hreinlega upp og rokkið sigraði að lokum eins og í öllum góðum sögum.

The wild and the young will always be free!
(Kevin DuBrow, 1986)

Óneitanlega mun ómeðvitaðra og einlægara. Pirraður og timpraður blaðamaður í smábæ. Hatar alla og þá sérstaklega sjálfan sig. Finnst allavega allir heimskir. Þetta hefði verið gott stöff í bloggbók.

Núna skrifa ég æ oftar af því að ég þarf að skrifa og stundum er þessi námugröftur þreytandi. Stundum nenni ég þessu ekki. Mig langar bara út að moka snjó. En ég verð að klára þetta. Ég verð að hafa eitthvað til að gefa í jólagjöf.

Fært undir Óflokkað. 3 ummæli »